10.01.1917
Neðri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (325)

44. mál, útflutningsgjald af síld

Bjarni Jónsson:

Það sem jeg vildi segja, var að eins örstutt athugasemd út af ræðu háttv. 2. þm. Árn. (E. A.). Jeg get ekki sjeð, að full ástæða sje til þessa ótta, sem fram kom í ræðu hans, um það að þessi tvö ríki, sem hann nefndi, mundu telja það fjandskap við sig, þótt vjer legðurn á þennan toll. Sjerstaklega á þetta við að því er snertir það landið, sem austar liggur, Svíþjóð. Betur gæti jeg skilið, að slíkur tollur yrði óvinsælli í Noregi. En þar sem háttv. þm. (E. A.) mintist á, að þeir mundu banna í staðinn útflutning á síldartunnunum, þá skal jeg geta þess, að þeir hafa þegar bannað útflutning á þeim, og jeg veit ekki til, að það bann sje enn þá afnumið.

Þar sem sami háttv. þm. (E. A.) tók til samanburðar kolatollinn, sem í ráði var að lagður yrði á 1912, þá er þar ólíku saman að jafna, því að þá var það tilætlunin, að vjer tækjum upp þann sið, að versla öðru vísi við útlendinga, sem hingað kæmu, en við innlenda þegna, en hjer er ekki um annað að ræða en að leggja gjald á þær afnytjar, sem útlendingar hafá af landi voru.

En svo er annað, sem miklu máli skiftir í þessu efni.

Stjórnin muni standa miklu betur að vígi, ef þessi tollur yrði lagður á, um að semja við útlend ríki um hlunnindi, sem vjer þurfum að fá hjá þeim. Þá hefði hún þó einhver fríðindi að bjóða í staðinn. Þegar vjer fyrir nokkrum árum fórum fram á það við Norðmenn, að lækkaður yrði þar í landi tollur á íslenskum hestum, þá spurðu Norðmenn hvað þeir ættu að fá í staðinn, og fengu það svar, að ekkert væri hægt að veita þeim, af því að hjer í landi væru engin höft á norskum viðskiftum. Á því strandaði málið. Það er þess vegna svo langt frá því, að þetta geti verið hætta fyrir stjórnina, að það gæti auðveldlega orðið henni til hins mesta hagræðis.