11.01.1917
Neðri deild: 22. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í B-deild Alþingistíðinda. (329)

44. mál, útflutningsgjald af síld

Framsm. (Matthías Ólafsson):

Jeg kem hjer fram með brtt. á þgskj. 130, í því trausti að hún verði samþykt. Jeg get getið þess, að jeg hefi gjört þessar brtt. eftir bendingu hæstv. forsætisráðherra (J. M.), og hafa engar brtt. komið fram, þrátt fyrir að jeg bauðst til.við 1. umræðu þessa máls, að taka allar brtt. til athugunar. Hefi jeg því ekki ástæðu til að vænta neinna mótbára gegn frv.

Við 1. umr. þessa máls sýndi jeg fram á, hver hagur landssjóði gæti orðið af frumvarpi þessu, ef það yrði að lögum, og hefir enginn orðið til að bera brigð á þau ummæli mín.

Hins vegar hefir það verið tekið fram, að Norðmenn og Svíar, sem útflutningsgjaldið að sjálfsögðu kemur að nokkru leyti niður á, mundu gjöra tilraunir til að bekkjast við oss á ýmsan hátt, í hefnileik fyrir útflutningsgjaldið. Mjer virðist sú tilgáta allósennileg, því jeg get eigi sjeð,að þessar þjóðir hafi neina ástæðu til að þykkjast við oss, þótt vjer viljum hafa eitthvað fyrir snúð vorn og snældu, þar sem þær njóta svo mikilla hlunninda hjer á landi, að mest líkist því, að landið sje þeirra eign en ekki vor.

En ef eigi er hægt að vænta svo mikillar nærgætni af þeim, að þær viðurkenni sjálfsagðan rjett vorn til að setja lög í voru eigin landi, án þess að þær gjöri oss einhvern óleik í móti, þá er að taka því. Jeg fyrir mitt leyti vænti eigi neins slíks og hefi fylstu ástæðu til að halda, að þær láti þetta mál hlutlaust og viðurkenni rjett vorn og þörf á tekjuauka.

Útflutningsgjald þetta er eigi heldur svo hátt, að eigi borgi sig fyrir þær að leita hingað til síldveiða, meðan síldarverðið er eins hátt og það var síðastliðið sumar, og það er víst, að þær standa eftir sem áður betur að vígi en vjer.

Auk þess sem Norðmenn hafa fengið miklum mun hærra verð fyrir síldina hjá Bretum en vjer, hafa þeir og þau þægindi, að þeir geta flutt allmikið af nauðsynjum þeim, er þarf til síldarútvegarins á fiskiskipum sínum, en vjer þurfum að leigja afardýr flutningaskip til þess, og þegar þeir halda heim að haustinu, geta þeir fermt veiðiskipin með síld til útlanda.

En þyki þeim eigi tilvinnandi að koma hingað til veiða, vegna þessa lítilfjörlega gjalds, þá ætti oss síst að vera eftirsjá að þeim. Gjöld þau, er þeir greiða oss, eru sannarlega lítils virði á við þann óhag, ei þeir baka oss.

Auk þess, sem Norðmenn og Svíar eru keppinautar vorir á fiskimiðunum og á markaðinum, þá hafa þeir náð ýmsum bestu útgjörðarstöðunum því nær undir sig, svo að landsmenn geta eigi fengið bryggjustæði, og geta því hvergi lagt að landi. Afleiðingin er sú, að þeir, sem gjöra út mótorbáta til síldveiða, verða að selja þeim, er bryggjurnar eiga, afla sinn fyrir hvaða verð, sem þeir vilja gefa, af því að þeir geta eigi fengið „upplagsstaði“, svo að þeir geti látið salta síldina sjálfir. En það er víst, að þá er fyrst veruleg hagsvon af síldveiðinni, ef menn geta verkað hana sjálfir.

Það er því vorkunn þótt vjer vildum ná í einhverjar tekjur af þeim hag, er útlendingar hafa af því, að nota svo land vort oss til stórtjóns.

Gæti frv. þetta stuðlað að því, að þessar þjóðir rýmdu fyrir oss, þá væri það auðvitað besti árangurinn, en fyrir því þarf eigi að gjöra ráð; til þess er þetta útflutningsgjald of lágt.

En það ætti að gefa oss ofurlitlar tekjur og bæta oss þann veg þó eigi væri nema lítinn hluta af þeim skaða, sem þessar þjóðir eru valdar að.

Ef Norðmönnum og Svíum á annað borð þykir nokkurs vert um þetta útflutningsgjald, þá væri eðlilegast, að þeir byði oss einhverjar ívilnanir gegn því, að vjer lækkuðum það eða afnæmum það með öllu.

Svo sem kunnugt er, leggja Norðmenn innflutningstoll á hross og sauðakjöt. Ef þeir nú byði oss að afnema þessa tolla, að því er kæmi til íslenskra hrossa og íslensks sauðakjöts, gegn því, að vjer lækkuðum útflutningsgjaldið á síld, þá gæti slíkt auðvitað komið til mála. Reyndar mundu þau skifti naumast verða oss til mikils hags, að minsta kosti ekki að því, er til hrossatollsins kemur, því að vjer höfum betri markað annarsstaðar en þar, jafnvel þótt tollurinn væri afnuminn. En eins og jeg hefi tekið fram, býst jeg ekki við, að þeir hreyfi hönd eða fót út af þessu gjaldi.

Annars hefi jeg ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta. Býst við, að deildin taki málinu eins vel og vert er, og legg það að svo búnu undir dóm háttv. þm.