11.01.1917
Neðri deild: 21. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í B-deild Alþingistíðinda. (338)

11. mál, vátrygging sveitabæja og annarra húsa í sveitum

Framsm. (Einar Árnason); Lögin um vátrygging sveitabæja eru nú orðin 11 ára gömul. Og þar eð engum blandast hugur um, að þau eru velferðar- og þjóðþrifamál, skyldu menn ætla, að notkun þeirra væri almenn. En það er síður en svo. Það eru að eins örfá sveitarfjelög, er hafa komið á hjá sjer vátryggingu. Lýsir sjer í þessu tómlæti vor Íslendinga, í því að tryggja oss fyrir óáran og óhöppum. En ástæður eru nokkrar fyrir þessu, og ef þær ástæður standa góðu máli fyrir þrifum, er sjálfsagt að nema þær burtu. Ástæður þessar eru aðallega tvær.

Önnur ástæðan er sú, að framkvæmd laganna bakar sveitastjórnunum fyrirhöfn og umstang, sem er illa borgað. Vegna þessa hliðra hreppsnefndirnar sjer hjá forgöngu og framkvæmdum í þessu efni. En þegar hreppsnefndirnar vilja ekki gangast fyrir helstu framfaramálum sveitar sinnar, er ekki von, að aðrir hreppsbúar sjái sjer fært, að taka fram fyrir hendurnar á þeim. Landbúnaðarnefndin sá sjer ekki fært, að rekja sundur lögin til breytinga, einkum þar eð tíminn er svo naumur.

Síðari ástæðan er sú, að samkvæmt lögunum geta menn ekki fengið nema 2/3 hluta húsa vátrygða. Úr þessu á frv. að bæta, með því að breyta 2/3 í 5/6. Nefndin telur það með öllu ófært og afar ósanngjarnt, að sveitamenn geti ekki fengið hús sín trygð eins og húseigendur sjóþorpa og kaupstaða, sem samkvæmt lögum þeim, frá 20. okt. 1905, sem hjer er farið fram á að breyta, og lögum um brunabótafjelag Íslands frá 1907, er ætlað að tryggja 5/6 húseigna. Auk þess getur það valdið vátryggjendum miklu tjóni, ef eldsvoða ber að höndum, að hafa ekki vátrygt stærri hluta húseigna sinna. Fæstir eru svo efnum búnir, að þeir megi við slíku tjóni, og er þá auðsætt, að þeir verða að leita erlendra fjelaga og hefir það oft orðið til þess, að menn hafa orðið að sæta ókjörum af erlendum fjelögum. Þessu máli þarf að hrinda áfram. Það er þjóðarnauðsyn, að tryggja eignir og vellíðan landsmanna.

Þá skal jeg víkja að frv. 1. gr. þess er sú efnisbreyting, að þar komi 5/6 fyrir 2/3 í gömlu lögunum. Greinin er einnig öðruvísi orðuð, en það eru að eins orðabreytingar. Nefndin leggur til, að breytingin í 2. gr. frv. við 4. gr. áðurnefndra laga, frá 20. okt. 1905, verði orðuð öðruvísi. Í upphaflegu lögunum stendur, að þeir „skuli undanþegnir skylduákvæði, er hafi vátrygt í áreiðanlegu erlendu brunabótafjelagi.“ Með hliðsjón af hinu nýstofnaða brunabótafjelagi Íslands hefir flm. frv. (Sv. Ó.)viljað bæta við „eða innlendu“. Nefndin leggur til, að „erlendu eða innlendu“ verði felt burtu, en í þess stað komi „áreiðanlegu brunabótafjelagi“.

Svo kemur 3. gr. Þar er sama breyting til samræmis við 1. gr, 1/6 fyrir 1/3. Sama er að segja um 4. gr. frv.

Jeg sje ekki ástæðu til að tala nánar fyrir frv. Það liggur ljóst og einfalt fyrir, og getur ekki valdið misskilningi. Nefndin telur það þarft, og vill að það gangi sem greiðast gegn um deildina.