27.12.1916
Neðri deild: 6. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (342)

12. mál, breyting á tolllögum fyrir Ísland

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg hefl borið fram þetta frv. eftir ósk fjölda kjósenda í Reykjavík. Skatturinn, sem greiddur er landsjóði af sykri, er mjög tilfinnanlegur, en kemur þó einkum hart niður á fátækri alþýðu. Eins og tekið er fram í ástæðum frv., er sykur fullkomin nauðsynjavara, og því eigi frekar ástæða til að tolla hann en aðrar matvörur, og það því síður sem fátækt fólk þarfnast jafn vel meiri sykurneytslu en efnamenn. Er það efnasamsetning sykursins, sem gjörir hann svo ómissandi, og er því mjög ranglátt að leggja þungan skatt á svo nauðsynlega vöru. Eitt heimili með 5 —6 manns, þarf að gjalda í þennan skatt 20—30 kr. á ári, eða jafnvel meira, og er það tilfinnanlegt þeim, sem ekki eiga málungi matar. Jeg neita því eigi, að landsjóður missi tekjur, ef frv. þetta nær fram að ganga, en jeg er þess fullviss, að finna mætti miklu rjettlátari tekjustofn en þenna. Vona jeg að háttv. deild verði svo sanngjörn, að breyta til, hvað þennan tekjustofn snertir, því vart verður fundinn öllu ranglátari tekjustofn. Upphæð sú, sem landsjóður fær í sykurtollinn árlega, er ekkert smáræði, og verði eigi bráðlega fundið eitthvað í staðinn, missir landsjóður mikið fje. En frv. það, er jeg hefi flutt um einkasölu á steinolíu, bætir þó nokkuð úr, og svo hefi jeg hugsað mjer, að koma með annað frv., er eykur tekjur landsjóðs að miklum mun. Mun mjer þó eigi vinnast tími til að búa það undir þetta þing, en jeg hygg það muni eigi koma sjer mjög illa, þó að það komi ekki fram fyr en á næsta þingi.

Ein ástæða mælir og sjerstaklega með frv., sem sje sú, að eigi er útlit fyrir, að flytjast muni mikið af sykri til landsins næsta ár, nema það, er stjórnin flytur. Þegar svo er komið, ætti landsjóður eigi að ætla sjer miklar tekjur af sykri á komanda ári. Er því eigi mikið í húfi.

Jeg vænti þess, að háttv. deild taki frv. vel, og sting jeg upp á, að því verði vísað til fjárhagsnefndar.