27.12.1916
Neðri deild: 6. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í B-deild Alþingistíðinda. (345)

13. mál, einkasala á steinolíu

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg hefi ásamt háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) leyft mjer að koma fram með þetta frv.

Eins og háttv. deild er kunnugt, kom samskonar frv. fram 1912 frá milliþinganefnd, sem þá hafði um hríð setið á rökstólum. En því frv. var þá tekið fremur dauflega, og komst ekki til framkvæmda þá, en aftur voru á þinginu það sama ár, samþykt lög, sem heimiluðu stjórninni, að veita innlendu fjelagi einkarjett til steinolíusölu, eða taka hana að sjer sjálf og reka hana upp á eigin spýtur. En eins og allir vita, hefir þetta aldrei komið til framkvæmda. Eitt fjelag mun hafa sótt um, að sjer væri veitt þetta leyfi, en stjórninni ekki litist gjörlegt að veita því það. Nú má heita, að það sje orðinn almennur vilji þjóðarinnar, að landið taki að sjer þessa verslun, og mun það vera af því, að fjelag það, sem nú í reyndinni hefir, að kalla, nær alla steinolíuverslunina, hefir ekki þótt þægur ljár í þúfu, heldur má segja, að það á hverju ári hafi stórfje af almenningi.

Ef þetta frv., sem jeg ber hjer fram, yrði að lögum, þá mætti ætla, að með því vœru slegnar tvær flugur í einu höggi. Í fyrsta lagi yrði verðið á þessari þurftarvöru ekki hærra en nauðsyn krefði, svo að landið fengi nauðsynlegan tilkostnað endurgoldinn, og auk þess mundi það afla landsjóði tekna, sem líklega mundi nema um 100 þús. kr. á ári, án þess að það munaði hvern einstakan miklu.

Eftir frv. milliþinganefndar 1912 átti leyfishafi að steinolíuversluninni, að greiða í landsjóð 2 aura af hverjum lítra, en þó mátti útsöluverðið til almennings ekki vera hærra en 12 aura í heilum tunnum og 15 aura í smásölu, og var það mun lægra en áður tíðkaðist, því þá kostaði olían í tunnum 25—29 kr. og í smásölu 16—19 aura lítrinn.

Fullyrt var þá, að sama fjelagið, sem rekið hafði hjer olíuverslunina („D. D. P. A“) væri fáanlegt til að hafa verslunina á hendi, með þeim kjörum, sem frv. ákvað. Með þessu sýndi fjelagið og sannaði, að það hafði selt olíuna hjer óþarflega háu verði áður, og einnig hitt, að það vildi eigi með nokkru móti láta olíuverslunina ganga úr greipum sjer. Mætti af því ráða, að það væri ekki neitt hættuspil fyrir landið, að reka slíka verslun, ef það hefði hana eitt á hendi, jafn vel þótt olían væri flutt á sama hátt og fjelagið hefir flutt hana hingað til landsins, nefnilega í tunnum.

Til frambúðar væri auðvitað rjettast og arðvænlegast, að breyta olíuflutningnum í það horf, að hjer yrði gjörðir olíugeymar í stærstu kauptúnum landsins, og olían flutt til landsins og með ströndum þess í þar til gjörðum skipum.

Milliþinganefndin 1912 gjörði ráð fyrir, að með tveggja aura álagi á hvern lítra, mundi landsjóður fá 80—100 þús. kr. tekjur á ári, ef einhverju fjelagi yrði falin olíuverslunin, og eftir olíuverðinu, er ákveðið var í frv. nefndarinnar, átti olían að kosta 24 kr. tunnan; en ef landsjóður hefði rekið verslunina sjálfur, með sama hagnaði, var áætlað, að olían kostaði almenning 22 kr. tunnan.

En ef olíuversluninni væri breytt í það horf, að olían væri flutt í „Tank“skipum og geymd í olíugeymum, reiknaðist nefndinni, að landsjóður mundi fá 248.500 kr. í tekjur á ári. Kostnaður við að breyta versluninni í þetta horf var áætlaður um 800 þús. kr., í eitt skifti fyrir öll. Og ef reiknaðir væru 5% vextir af fjenu, og það endurgreitt á 20 árum, gjörði nefndin ráð fyrir að landsjóður mundi fá í hreinar tekjur 357.244 kr. á fjárhagstímabili.

Af þessu má sjá, að hjer er um mjög mikilvægt mál að ræða, sem er þess vert, að þingið gjöri alt, sem í þess valdi stendur, til að greiða fyrir því á skynsamlegan hátt, því svo hátt er verðið á olíunni hjer á landi nú, að hún er að kalla ókaupandi. Og ekki er annað sýnna, en að mótorbátaútgjörðin verði að hætta, ef ekki verða skjótlega bætur á þessu ráðnar, því, því miður, eru litlar líkur til, að fiskur hækki mikið í verði frá því, sem hann selst nú.

Vitanlegt er það, að ekki mun nú eins auðvelt að afla skipa og olíu, eins og fyrir stríðið, en eftir því, sem verslunarfróðir menn hafa tjáð mjer, þá mun þó vera hægt að útvega allmiklu ódýrari olíu, heldur en hún er seld hjer nú.

Enda verður því ekki neitað, að margt bendir á, að íslenska olíufjelagið selji olíuna miklu dýrari en nauðsyn krefur.

Fiskifjelagið keypti olíu í fyrra, eins og kunnugt er, og jeg tel rjett að geta þess, í þessu sambandi, hver áhrif þessi verslun Fiskifjelagsins hefir haft á olíuverðið hjá olíufjelaginu, því að strax eftir að olía Fiskifjelagsins var búin, þá hækkaði steinolíufjelagið hverja tunnu um 15 krónur. Sú mikla verðhækkun virðist þó ekki hafa verið nauðsynleg, þar eð olían hafði ekki hækkað neitt í verði um það skeið, sem Fiskifjelagið átti olíu.

Þar eð þetta mál er mikilsvert fyrir land og þjóð, vona jeg, að deildin taki því vel, og vil jeg leggja það til, að kosin verði fimm manna nefnd til að athuga það rækilega.

Í þetta sinn ætla jeg ekki að fara út í einstakar greinar frv. Má það bíða til annarrar umræðu. Þó vil jeg geta þess, viðvíkjandi 9. gr., þar sem drepið er á, hve nær lög þessi öðlist gildi, þá má auðvitað lengja þann frest, ef hann þykir ónógur. Vænti jeg þó, ef landsstjórnin snýr sjer strax að máli þessu, að þá muni tími til vinnast, svo hægt sje að byrja á framkvæmdunum á þeim tíma, sem tiltekinn er.

Um tveggja aura álag til tekna fyrir landssjóð getur verið álitamál. Álít jeg þó, að slíkt gjald komi alljafnt niður. Og þar eð almenningur fær sennilega olíuna ódýrari á þenna hátt en ella, virðist það sanngjarnt, að landssjóður njóti líka góðs af.