27.12.1916
Neðri deild: 6. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

13. mál, einkasala á steinolíu

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) tók það fram, að þing þetta hafi verið kvatt saman af brýnum ástæðum. Má vel vera, að svo sje. En hvað sem þeim ástæðum líður, þá álít jeg, að það sje ekki svo önnum kafið — mjer vitanlega hefir sáralítið verið lagt fyrir það, — að það geti ekki tekið til meðferðar mál, sem til góðs mættu verða, bæði landi og þjóð. Og jeg skil ekki, hvers vegna háttv. þm. (P. J.) vill bregða fæti fyrir frv.

Háttv. þm. S. Þ. (P. J.) lagði til, að málinu yrði frestað til næsta þings, sjerstaklega þar sem það þyrfti rækilegan undirbúning og athugun. Einmitt þess vegna álít jeg, að þörf sje á, að þetta þing afgreiddi málið til landsstjórnar. Henni væri þá kunnugt um vilja þingsins og gæti þá byrjað bráðlega á undirbúningnum, t. d. að útvega skip o. fl. Og að líkindum mætti þá byrja á framkvæmdunum á komanda hausti. Sje málið aftur á móti ekki afgreitt frá þingi fyr en í sumar, mundi það ógjörningur fyr en 1918, að stjórnin tæki olíusöluna að sjer.

Viðvíkjandi því, sem háttv. þm. Dala. (B. J.) lagði til málsins, þá get jeg fremur fallist á það. Álít þó heppilegra, að kosin verði sjerstök nefnd í málið, heldur en að því verði vísað til fjárhagsnefndar.