27.12.1916
Neðri deild: 6. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í B-deild Alþingistíðinda. (353)

13. mál, einkasala á steinolíu

Matthías Ólafsson:

Það er mesta fjarstæða, að vjer, sem ekki viljum hrapa að þessu máli, viljum það dautt. Hitt tel jeg rjettustu leiðina, að samþykkja þingsályktun um, að stjórnin búi málið undir næsta þing. Ættu lögin að ganga í gildi 1. október, gæti vel farið svo, að landið yrði olíulaust, því að auðvitað myndi steinolíufjelagið hætta að flytja olíu til landsins, jafnskjótt sem slík lög hefði náð samþykki þingsins. En olíuleysið væri það versta, sem oss gæti hent, því að þótt ilt sje að kaupa olíuna fyrir ránverð, þá er þó hitt margfalt verra, að eiga hennar engan kost.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) telur lítils við þurfa, ekki nema eins eða tveggja símskeyta tíl Ameríku. Sami háttv. þm. talar og um að útvega blikk eða eitthvað slíkt til að fóðra með brunna. Er þetta hinn mesti misskilningur og ber vott um þekkingarleysi þm. í þessu efni. Hjer er blátt áfram að ræða um kassa, alveg laghelda, sem eru hafðir undir olíuna, grafnir í jörð niður, svo að þeir standist hita og önnur áhrif, er spilla olíunni. Hjal hins háttv. þm. (B. J.) minnir á það, sem Job sagði við konu sína: „Þú talar sem fávísar konur tala“.

Mjer er þetta mikið áhugamál, en jeg tala af meiri reynslu en aðrir háttv. þm., er um málið hafa talað. Málið þarf mikinn undirbúning, og til hans þarf langan tíma. Í þetta mál verður að ráðast með forsjá og fyrirhyggju, og sjá við þeim miður heppilegu afleiðingum þess, sem jeg áður hefi bent á.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) virtist telja landið stjórnarlaust, og ekki viðlit að vísa þessu máli til stjórnar. Nú veit jeg ekki betur, en að við höfum fengið stjórn, og ekki ætti fleiri manna stjórn að ráða miður fram úr málum en einn maður. Með því að vísa málinu til stjórnarinnar fer þingið gætilega og hrapar ekki að málinu. Auk þess standa nú sakir svo, að lítið virðist unnið með því, að flýta málinu svo mjög. Eins og nú standa sakir, eru ekki horfur á, að olíukaupin yrðu landsmönnum stórum mun ljettari, þótt landið tæki að sjer söluna. Á það bendir sala landssjóðs á steinolíu frá Vesturheimi. Stjórnin hefir ekki sjeð sjer fært að selja miklu ódýrara en steinolíufjelagið. Má af því marka, að eigi er líklegt, að gróði fjelagsins sje mikill sem stendur. Hjer við bætist, að landsmenn mundu geta fengið olíu á annan hátt, því að vitanlegt er, að nokkrum einstökum mönnum hafa borist tilboð.

En eins og háttv. deild mun fullljóst, er það sannfæring mín, að betra sje, að landið hafi einokun á þessari vöru sjer í bag, en að einstakt fjelag, innlent eða útlent, einoki hana, landsmönnum öllum, og þar með landinu, til stórskaða. Sje því einokunin nauðsynleg, er jeg því hlyntur, að lög í þessa átt sje samþykt sem fyrst. En eins og jeg hefi tekið fram, verður hjer að fara með forsjá og rasa eigi um ráð fram.