27.12.1916
Neðri deild: 6. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (354)

13. mál, einkasala á steinolíu

Pjetur Jónsson:

Jeg hefi ekkert lagt móti frv.; en mjer finst því eigi bani búinn, þótt því sje frestað til næsta þings. Jeg get lýst yfir því, að jeg myndi eigi setja það fyrir mig, þótt landið tæki að sjer einkasölu á vörum, t. d. steinolíu, ef framkvæmanlegt þykir. En um það er vandi að dæma, og er því málið umfangsmikið, en þingið hefir nauman tíma. Það hefir verið sagt, að jeg ætla af tveimur háttv. þm., sem tekið hafa til máls, að engar reglur sje fyrir því, hvað bera megi fram hjer á þingi og hvað ekki. Þetta er auðvitað alveg rjett. Slíkar reglur mega ekki vera til. Frumkvæði þingmanna má ekki takmarka með lögákvæðum eða banni. En hitt er það, að jeg tel ekki heppilegt, að þingmenn, og þá síst að þessu sinni, lengi þingið of mjög með því, að bera fram mál, er að skaðlausu geta beðið til næsta reglulegs þings. Vona jeg og, að menn búsettir hjer í Reykjavík geti nærri, hve oss, sem erum langt frá heimilum vorum, muni óþægilegt að sitja hjer lengi fram eftir vetrinum. Það er í lófa lagið að takmarka, hve mörg tafsöm mál verða fyrir þinginu. Jeg vildi að eins gefa þessa bendingu. Hvort málinu skuli vísað til fjárhagsnefnar eða ekki, læt jeg ligga milli hluta. Nefndin mun að sönnu eigi hafa mikið að gjöra, en mennina getur það þó tafið frá starfi í öðrum nefndum.