27.12.1916
Neðri deild: 6. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (355)

13. mál, einkasala á steinolíu

Skúli Thoroddsen:

Mjer hefir skilist, að aðalmótbáran móti þessu máli sje ekki sú, að hjer sje ekki um gott og þarft mál að ræða, heldur hin, að málið sje illa undirbúið, og þyrfti langan undirbúning. Jafnvel þótt þessi mótbára hefði við nokkur rök að styðjast, þá leiddi hún engan veginn til þess, að fella málið nú, heldur þvert á móti til hins, að taka það til meðferðar og íhugunar á þinginu, jafnvel þótt það yrði ekki á enda kljáð að þessu sinni. Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) telur og hættu á því, ef frv. þetta gengi fram, að kaupmenn myndu ekki birga sig upp með olíu, og landið því verða olíulaust. Heppilegast taldi hann það, að stjórnin byggi málið undir og legði það fyrir þingið. Og mjer skildist svo, sem það væri áhugamál þingmannsins, að stjórnin hefði undirbúið það, er næsta þing kemur saman. En þá vil jeg spyrja háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.). Ber ekki hjer að sama brunni? Mundu kaupmenn frekar búa sig undir það, að ná kaupum á steinolíu, ef þeir vissu að það stæði til að samþykkja einkasölulög? Munurinn yrði enginn annar en sá, að málið fengi miklu betri undirbúning en ella, við það að ganga fyrst gegn um nefnd og umræður í báðum deildum og síðan rannsókn stjórnarinnar. Líka ber þess að gæta, að verði málið felt núna, þá er full ástæða fyrir stjórnina til þess að líta svo á, sem þingið sje því mótfallið, og hún eigi þar af leiðandi ekki að sinna því á neinn hátt.

Sje því skoðanamunurinn ekki annar en sá, er jeg hefi nú bent á, er mótbára þessi einskis nýt. Fleiri orðum sje jeg ekki þörf að eyða að málinu á þessu stigi þess.