09.01.1917
Neðri deild: 18. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í B-deild Alþingistíðinda. (365)

22. mál, fasteignamat

Einar Árnason:

Eins og nefndarálitið ber með sjer, þá skrifaði jeg undir með fyrirvara, og var það vegna 3. gr., sem ræðir um hækkun dagpeninga matsnefndarmanna. Jeg sje ekki að brýna nauðsyn beri til að hækka þá. Því þótt jeg viðurkenni að kaupið sje ekki hátt, þá lít jeg svo á, að menn geti unnið starf þetta sjer að skaðlausu, ef þeir nota tímann rjettilega. Til samkomulags um þetta atriði í nefndinni, bar jeg fram tillögu um að framlengja starfstíma matsnefndanna um 1 ár, svo þær gætu því fremur notað ódýran tíma. En nefndin fjelst ekki á þetta af þeim ástæðum, að nauðsynlegt væri, að jarðamatið lægi fullbúið fyrir þinginu 1919. En vegur væri það, ef fresturinn vœri framlengdur til ársloka 1918, og þætti mjer ekki ólíklegt, að matsnefndirnar gætu fengið þá ívilnum hjá yfirboðurum sínum.

Mjer er ekki heldur kunnugt um, að óskir hafi komið fram frá matsmönnum um kauphækkun. Enda get jeg ekki heldur sjeð, að þessi hækkun um 1 kr. dragi hvern einstakan matsmann nokkurn skapaðan hlut, en landssjóð munar það talsverðu fje.

Jeg þykist sem sagt hafa reynslu fyrir mjer í þvf, að vinna megi starf þetta sjer að skaðlausu, þótt ekki sje hækkað kaupið, en auðvitað er það ekki arðvænlegt starf.

Jeg álít líka, að þeir sje nógu margir, sem hagnýta vilja sjer örlæti landssjóðs, þótt matsnefndamenn gangi undan.