09.01.1917
Neðri deild: 18. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í B-deild Alþingistíðinda. (369)

22. mál, fasteignamat

Stefán Stefánsson:

Háttv. 2. þm. Eyf. (E. Árna.) skýrði frá því, að hann hefði skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara, og er því á sama veg farið um mig. Mjer sýnist engin nauðsyn bera til þess, að hækka laun matsmanna. Auðvitað eru 5 kr. daglaun of lág, ef eingöngu þarf að verja dýrasta tímanum, sumri og vori, til starfsins. En þegar það er sýnilegt, og enda reynsla fengin um það, að mjög mikið má að þessu vinna yfir háveturinn, þegar engar aðrar annir kalla að, þá má líta svo á, sem kaupið sje viðunanlegt. Að vísu verða matsnefndarmenn að ferðast um að vori eða hausti, en þar sem þeir geta skift með sjer vissum svæðum til yfirferðar, þá hygg jeg, að þær ferðir ættu ekki að þurfa að standa lengur yfir en vinna þarf að skriftum að vetrinum. Enn fremur veit jeg ekki til, að matsmenn þurfi að kaupa greiða á ferðum sínum, og ferðist því sjer að kostnaðarlitlu, nema að því leyti sem þeir eyða tíma, og geta þar af leiðandi ekki stundað bú sitt á meðan. Auk þessa er mjer vel kunnugt um það, að talsvert kapp hefir verið um það, að ná í þetta fasteignamatsstarf, og hafa menn þó haft að vísu að ganga um 5 kr. daglaunin, svo einnig af þeirri ástæðu virðist hækkunin óþörf, enda veit jeg ekki til, að um þetta hafi verið neitt alment kvartað.

Þetta er það, sem veldur því, að mjer finst ekki brýn ástæða til að hækka launin. Svo er og þess að gæta, sem sumir háttv. þm. hafa tekið fram, að matsnefndarmönnum væri lítill styrkur að þessari hækkun. Auðvitað á ekki þessi litli ágreiningur að geta orðið til þess, að fella sjálft frumvarpið. Því jeg tel sjálfsagt, að sjerstök atkvgr. verði um þenna lið. En að öðru leyti er nefndin sammála.