09.01.1917
Neðri deild: 18. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í B-deild Alþingistíðinda. (371)

22. mál, fasteignamat

Framsm. (Jón Jónsson):

Jeg býst við, að brtt. nefndarinnar verði samþykt. Mjer þykir líklegt, að háttv. þm. sjái, hve sanngjörn þessi þóknun til matsmannanna er. Jeg held, að það sje ekki rjett hjá háttv 1. þm. Eyf. (St. St.), að matsmenn þurfi ekki að borga greiða eða gistingu. Jeg skil ekki, að þeir geti til dæmis fengið ókeypis fæði og húsnæði í sjóþorpum, þótt svo kunni að vera á sveitabæjunum.

Háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) sagði, að ekki hefði verið farið fram á breytingu í þessu efni. Mjer er kunnugt um menn, sem hafa hugsað um að sækja til aðalþingsins næsta um hækkun. Hugsast gæti líka, að einhver þeirra, sem óánægðir eru, segði af sjer. Að vísu er þetta starf veitt æfilangt, en hjer er um enga skyldu að ræða. Hugsa jeg, að þessir menn megi segja af sjer eins og aðrir. Gæti það orðið bagalegt, ef menn hættu í miðju kafi, og ókunnir menn tæki við starfinu. Mundi það valda ruglingi og ósamkvæmni í matinu. Því tel jeg rjett, að reynt sje að gjöra þessa menn ánægða.