04.01.1917
Neðri deild: 14. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

26. mál, landauralaun

Gísli Sveinsson:

Þetta frv. kemur mjer kynlega fyrir. Jeg hjelt, að það væri þegjandi samkomulag að demba ekki inn á þetta aukaþing neinni umsteypu á launalögunum. En þetta er víst misskilningur, því að hjer er á ferðinni frumvarp, sem gjörir algjörða umveltu á öllu launafyrirkomulagi landsins. Sje farið að hrófla við launalöggjöfinni, er sjálfsagt að taka hana fyrir frá rótum, en til þess tel jeg engan tíma á þessu þingi, hversu mikil nauðsyn sem á væri. Hjelt jeg því að enginn mundi leyfa sjer að koma nú með slíkt frv. sem þetta. Jeg veit ekki betur en að þetta þing muni brátt á enda, ef nefndir þess geta lokið störfum sínum í tæka tíð. Þetta frv. þarf mikinn undirbúning, enn þá meiri en þingnefndirnar geta í tje látið að þessu sinni. Verði á á þessu þingi afgreidd sæmileg dýrtíðaruppbót fyrir embættis- og sýslunarmenn landsins, hygg jeg það fullnóg. Og að rekast í launamálinu nú, tel jeg ramskakt, því að til þess vinst ekki tími, og málið er enn eigi nógu rannsakað fyrir, þótt launanefnd hafi um það fjallað um hríð milli þinga. Sjálfur flutnm. (B. J.) játar, að hann hafi hvorki haft tíma nje nenningu til að athuga málið til hlítar.

Jeg get gjarna lýst yfir því, að jeg tel þessa aðferð, sem frv. hefir að færa, heppilegasta, en hins vegar er það engin ný hugmynd. Aðrir hafa áður rætt um hana. En jeg fæ ekki skilið, hvers vegna þessi háttv. þm. (B. J.) vill flýta sjer að verða á undan stjórninni um frumkvæði í launamálinu. Jeg tel rjett, að miða laun við verðlag, og ætla það hentugustu leiðina.

Háttv. flutnm. (B. J.) fór að leiða getur að því, hvers vegna þetta fyrirkomulag var áður haft, og vildi eigna það viturleik þeirra, er þá lifðu. En svo mun ekki vera. Hitt hygg jeg sönnu nær, að þá voru allar ástæður þann veg, að þessa leið varð að fara, en aðrar ekki. T. d. höfðu menn þá enga mynt, slíka sem nú er, til þess að miða við.

Með öðrum orðum, jeg tel málið ekki nægilega undirbúið nje athugað, en sjálfsagt að landsstjórnin athugi það, og beri síðan fram á þingi lagafrv. bygt á þessum grundvelli. Jeg tel það rjett, að landsstjórnin hafi frumkvæði um launamálið. Í tilefni af þessu vil jeg bera fram rökstudda dagskrá, sem jeg nú skal lesa upp með leyfi hæstv. forseta:

Í því trausti, að landsstjórnin

1. undirbúi launamálið rœkilega undir nœsta þing, og

2. athugi sjerstaklega, hvort eigi sje fœrt og sjálfsagt að miða launagreiðslur landssjóðs við landauraverðlag, — og leggi fyrir Alþingi frv. til launalaga á þeim grundvelli, tekur deildin fyrir nœsta mál á dagskrá.