04.01.1917
Neðri deild: 14. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í B-deild Alþingistíðinda. (386)

26. mál, landauralaun

Einar Jónsson:

Jeg hefði getað sparað mjer að taka til máls, eftir ræðu hins háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv ). Samt vil jeg lýsa yfir því, að jeg tel grundvöll frumvarpsins sanngjarnan, jafnvel rjettan. En jeg kann ekki við, að frv. kemur nú fram, Fyrst búið er að lögleiða, að verkamenn við verslanir skuli fá kaup sitt goldið í peningum , tel jeg ósamkvæmni í því, að fara nú út fyrir þann grundvöll, er um verkamenn landsjóðs er að ræða. En þar sem peningar eru á ófriðartímum ákaflega reikull verðmælir, tel jeg þennan grundvöll í sjálfu sjer rjettmætan.

Annað atriði vildi jeg taka fram, sem háttv. flutnm. (B. J.) hefir líklega sjest yfir. Hann mintist á launafyrirkomulag forfeðra vorra, og hefir þar að öllum líkindum átt við Búalög. Nú kveða þau svo á, að sá einn fái fulla borgun, sem vinni fult verk. En hvernig skyldi fara fyrir hinum hv., stórvirka grísku-dósent, þegar hann sækir laun sín, ef fylgt væri ákvæðum Búalaga í þessu efni? En fyrst Búalög eru höfð í huga, þá ber að fara eftir þeim. Jeg sje því ekki, hvernig háttv. háskólakennaranum ferst að halda slíku fyrirkomulagi fram. Jeg mun verða móti frv., af sömu ástæðu og háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv) tók fram.

Jeg sje á blöðunum, að þau kenna mjer um tafir þingsins, þar sem jeg hafi verið fjarverandi um jólin. Vil jeg láta þess getið með leyfi hæstv. forseta, að jeg mun eigi virða þessar árásir þeirra svars. Það lítur helst út fyrir að þingið geti ekkert gjört, nema jeg sje við, og tel jeg það heiður fyrir mig. Um leið og jeg nú óska öllum háttv. þm. gleðilegs árs, vil jeg segja þeim, að sannleikurinn er sá, að jeg bað hæstv. forseta því að eins veita mjer heimfararleyfi, að ekkert yrði gjört á meðan, og bjóst hann ekki við neinum þingfundum fram til nýárs, auk þess sem margir hinir eldri og merkustu þm. kváðu það ekki venju í neinu siðuðu, kristnu landi að vinna að þingstörfum í jólahelginni. Jeg var því þakklátur fyrir heimfararleyfið. Þetta er nú að eins útúrdúr, sem jeg bið hv. þm. að fyrirgefa. Vil jeg svo enn einu sinni taka fram, að jeg mun greiða atkv. móti frv. því, er hjer liggur fyrir og óska, að sem flestir háttv. þm. gjöri hið sama.