04.01.1917
Neðri deild: 14. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í B-deild Alþingistíðinda. (392)

26. mál, landauralaun

Flutnm. (Bjarni Jónsson):

Mjer þótti leitt, að háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) var ekki við, þegar jeg sýndi fram á það, að tillaga hans og allar tillögur, sem fram hafa komið í þessu máli, væri á misskilningi bygðar. Menn verða vel að gá að því, að hjer er alls ekki farið fram á breytingar á launum manna; eina atriðið, sem farið er fram á, er það, að launin sje reiknuð í landaurum, en goldin í peningum; en þetta er atriði, sem ekkert kemur laununum við; þau má taka fyrir á næsta þingi, þótt þetta frv. verði samþykt nú. Þar á móti stendur frv. í nánu sambandi við uppbótina, því að með frv. þarf aldrei að koma til greina, að laun verði bætt upp. Þetta er svo skynsamlegur mælikvarði, að frv. á að ganga fram. Laununum kemur frv. ekkert við, og því undarlegra er að heyra fram koma 20 dagskrár um að láta málið bíða, af því að launamálið sje ekki tekið fyrir á þessu þingi, þrátt fyrir það þótt frv. komi ekki meira við launamálinu en kötturinn sjöstjörnunni.

Háttv. þm. V. Sk. (G. Sv.) má þekkja mig illa, ef hann hyggur, að jeg muni gugna við minn málstað, þótt ekki sje mjer allir fylgjandi í fyrstu. Hann talaði um það, að ekki ætti við að rasa fyrir ráð fram. En hvers vegna á að geyma það, sem er rjett.

Þá kem jeg að háttv. þm. S.-Þ. (P. J.), sem vildi gefa mjer skýringu, sem jeg þakka fyrir. Hann heldur, að hjer sje um mikið verk að ræða fyrir hagstofuna, en jeg er viss um, að verkið getur ekki tekið meira en viku eða hálfan mánuð. Jeg gjöri ráð fyrir því, að verðlagsskrá verði samin árlega eftir reglum, sem stjórnin setur. En þar sem háttv. þm. (P. J.) var að skýra álnatalið, fanst mjer hann fremur rugla það. Það er auðvitað, að sjóvetlingar og annað, sem nú er úrelt, varð að taka með, þegar meta átti laun manna, er í embættum voru, þegar þær vörur voru lífsnauðsynjar. Þetta hefir háttv. þm. (P. J.) ekki skilið, en góðan vilja þakka jeg.

Annars hafa allar ræður manna nú verið út í loftið, vegna þess að þetta er ekki launafrumvarp. En fádæmum þætti mjer sæta, ef menn vilja ekki láta svo rjettlátt frv. verða athugað í nefnd. Hinu get jeg lofað, að tefja ekki þetta þing, sem vill hlaupa burt hjeðan þann 10. þ. m., á fleiri ræðum um þetta mál.