04.01.1917
Neðri deild: 14. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í B-deild Alþingistíðinda. (410)

16. mál, lánastofnun fyrir landbúnaðinn

Stefán Stefánsson:

Jeg stend einungis upp til þess að mæla með því, að brtt. háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) verði samþykt, því hana tel jeg mun heppilegar orðaða en aðaltillöguna. Jeg teldi það mjög æskilegt, ef unt væri að koma upp slíkri lánsstofnun sem þessari, en því miður sýnast mjer horfurnar á því allerfiðlegar, eins og nú stendur.

Háttv. flutnm. aðaltill. (S. S.) benti á það, hve landbúnaðinn vantaði tilfinnanlega peninga til eðlilegrar framþróunar, og er seint ofsögum af því sagt, en hann kom ekki fram með neinar verulegar bendingar um það, hvernig ætti að fara að því, að koma upp peningastofnum, sem bætti úr þörfinni og yrði bændum til hvatningar, enda mjög mikið vafamál hverjar leiðir til þess eru heppilegastar. Því að það er rjett, sem háttv. flutnm. (S. S.) tók fram, að lánin þurfa að vera veitt til langs tíma með góðum kjörum, lágum vöxtum.

Það sem mjer hefir dottið í hug að hreyfa í þessa átt er það, að auk Ræktunarsjóðsins, sem er beint ætlaður til lánveitinga fyrir landbúnaðinn, og kirkjujarðasjóðs, sem óneitanlega ætti að vera undir sviplíku fyrirkomulagi, þá legði landssjóður fram árlega um nokkur ár, allverulega fjárupphæð til sjóðmyndunar í þessu augnamiði, og að sá sjóður væri undir sömu stjórn og Ræktunarsjóðurinn, því að með því fengist svo gott heildaryfirlit yfir allar slíkar lánveitingar.

Annars er það fleira en vöntun á lánsfje, sem stendur í vegi fyrir framförum landbúnaðarins; fólkseklan, og á ýmsum stöðum erfiðar samgöngur, á sinn þátt í því að bændur geta alls ekki gjört stórstígar jarðabætur, enda kauphæð svo gífurleg nú á síðastliðnu ári, að minsta kosti þar, sem jeg þekki best til, að nokkur efi getur á því leikið, hver ávinningurinn verður að svo afardýrum jarðabótum, en þetta stafar auðvitað af stöðugri eftirspurn útgjörðarmanna eftir vinnulýðnum.

Skal jeg svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en vænti þess að brtt. verði samþykt.