08.01.1917
Neðri deild: 17. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í B-deild Alþingistíðinda. (417)

33. mál, réttur landssjóðs til fossa o. fl. í afréttum

Einar Arnórsson:

Jeg stend upp í sama tilgangi sem háttv. þm. Dala. (B. J.), að þakka háttv. flutnm. (G. Sv.) fyrir tillöguna. Jeg er algjörlega á sama máli um það, að mikil þörf sje á því að athuga þetta efni sem best. Fyrri liðurinn fer fram á það, að því er mjer skilst, að athuga rjettarákvæði, sem hjer að lúta, og er það nauðsynlegt, því að ábyggilega niðurstöðu fáum vjer ekki ella. En sú rannsókn hlýtur að fela í sjer rannsókn á gildandi allsherjarrjettarákvæðum um það efni. En auk þess hlyti að verða nauðsynlegt, að skygnast aftur í tímann og rannsaka, hvaða ákvæði finnast um þessi efni í fornri löggjöf vorri, því að hin nýrri verða varla til fulls skilin án slíkrar rannsóknar. Þar með mun og eiga að fylgja rannsókn á því, hver einkarjettaryfirráð einstakir menn eða landið hefir yfir hverjum fossi um sig.

Um hitt atriðið, að rannsaka rjett einstaklinga og fjelaga til fossa, er það að segja, að þegar hafa verið gjörðar ráðstafanir til þessa. Í minni stjórnartíð gjörði jeg ráðstafanir til þess að fá eftirrit úr öllum veðmálabókum úr öllum sýslum landsins um það, hverjir fossar væru seldir, og jeg býst við því, að nú sje þegar mikið af þessum eftirritum komið í stjórnarráðið. Enn fremur voru þá einnig gjörðar ráðstafanir til að fá mælt afl fossanna.

Um síðari lið till. er það að segja, að jeg álít að erfitt verði að framkvæma það, sem þar er farið fram á. Þar er nefnilega gjört ráð fyrir því, að rifting fari fram á öllum samningum, sem sýslur eða hreppar kunna að hafa gjört við einstaka menn eða fjelög, og koma í bág við rjett landssjóðs. Slík rifting mundi varla geta farið fram, nema greiddar væru skaðabætur úr landssjóði í sumum tilfellum.

Annars býst jeg við, að ekki verði neitt gjört, að því er snertir síðari lið till., fyrir næsta þing, og er því alveg óhætt að samþykkja hann.