06.01.1917
Neðri deild: 16. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í B-deild Alþingistíðinda. (422)

34. mál, einkasala landssjóðs á steinolíu

Framsm. (Skúli Thoroddsen):

Það er fjárhagsnefndin, sem hefir leyft sjer að koma fram með þessa till., af því að til hennar var vísað frv. því, sem kom hjer fram í deildinni, um að landsstjórnin tæki að sjer einkasölu á steinolíu.

Fjárhagsnefndin sá sjer ekki fært að mæla með því, að frv. yrði samþykt á þessu þingi, því að hjer er um stórt, áður óþekt atriði að ræða, og breytingar í þessa átt á fyrirkomulagi verslunarinnar verða ekki gjörðar á einu stuttu aukaþingi, með þeim undirbúningi, sem ein nefnd getur veitt því. Áður en vjer stígum svona stórt spor, verðum vjer að fá fulla vissu um, hvort þetta er framkvæmanlegt eða ekki. Nefndin gat ekki fengið neina vissu um það. En því vil jeg lýsa yfir fyrir hennar hönd, að hún er hlynt málinu, og vonar að það geti komist í framkvæmd sem fyrst, að landið taki að sjer einkasölu á þessari vörutegund, en hún sjer líka, að hjer getur verið við ramman reip að draga.

Nefndin leit svo á, að ekkert tapaðist við það, að fresta þessu máli til næsta þings, því að sjái stjórnin einhverja leið til að koma þessu í framkvæmd, þá getur það orðið jafnsnemma, og gjört er ráð fyrir í frv. háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.), en með því ynnist miklu betri tími til undirbúnings en hægt er að veita þessu máli hjer á þessu þingi. Jeg skal svo að síðustu skjóta því til stjórnarinnar, að jeg vona fastlega, að hún taki tillögunni vel, og gjöri alt sem í hennar valdi stendur, til þess að þetta mál komist í framkvæmd á næsta þingi.