06.01.1917
Neðri deild: 16. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í B-deild Alþingistíðinda. (424)

34. mál, einkasala landssjóðs á steinolíu

Ráðherra Björn Kristjánsson:

Það er ekki í fyrsta skifti að þessu máli er hreyft hjer á Alþingi, og það er ekki að ástæðulausu. Því að vjer Íslendingar höfum ekki farið varhluta af því, fremur en aðrar þjóðir, að Standard Oil Company hafi gjört okkur illar búsifjar. Aðrar þjóðir hafa líka stunið undir þessari sömu byrði, en þó eru það einkum Norðurlönd og Þýskaland, sem verst hafa orðið úti. Þau hafa, eins og við nú erum að gjöra, leitað að leiðum til að ljetta af sjer farginu. Það fyrsta, sem þessar þjóðir hugsuðu sjer að gjöra, var einmitt það, sem vjer erum nú að hugsa um, en það hefir ekki orðið úr því fyrir þessum ríkjum, að koma á hjá sjer einkasölu, af því að þau hafa ekki treyst sjer til þess. Þessi ríki hafa farið aðra leið. Þau hafa búið til keppinaut móti ameríska hringnum. Þjóðverjar mynduðu öflugt fjelag, sem hjelt olíuverðinu niðri.

Af þessum fjelagsskap vorum vjer, þegar stríðið skall á, farnir að njóta góðs. Fiskifjelagið hafði komist í samband við þetta þýska fjelag og fengið þá olíu, sem það keypti hjá því, með sæmilegu verði, og jeg verð að ætla, að að stríðinu loknu munum vjer geta komist í samband við það aftur.

Það eru þá þessar tvær leiðir, sem um er að tala að vjer getum farið. Annað hvort að landið taki að sjer einkasölu, eða að vjer sköpum einhverja samkepni, sem heldur olíuverðinu niðri. Sú aðferðin, að skapa samkepni, getur verið farin á tvennan hátt. Annað hvort með því, að einstakir menn eða fjelög kaupi heila farma af steinolíu með eða án aðstoðar stjórnarinnar, en stjórn landsins getur látið aðstoð sína í tje á ýmsan hátt. Hún getur t. d. lánað fje til olíukaupanna.

Hin leiðin til að skapa samkepni, er sú, að stjórn landsins kaupi við og við farma af steinolíu og selji hana. Í raun og veru er það alveg sama, hver heldur uppi samkepni, hvort það er stjórnin eða einstakir menn. Aðalatriðið er það, að verðið sje gott.

Jeg vildi einungis benda á þetta, af því að mjer fanst það liggja í ræðu háttv. framsm. (Sk. Th.), að hann teldi einkasöluna eina möguleikann til að halda verðinu niðri.

Annars er jeg fremur meðmæltur till., því hún er hóglega orðuð, og jeg býst við, að stjórnin taki hana til greina.