06.01.1917
Neðri deild: 16. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í B-deild Alþingistíðinda. (425)

34. mál, einkasala landssjóðs á steinolíu

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg get byrjað á því að þakka hv. nefnd fyrir það, að hún hefir þó ekki farið ver með málið en þetta, en samt get jeg ekki þakkað henni fyrir það, sem hún hefir gjört, því að jeg efast um að málinu sje nokkuð betur komið á þennan hátt en þann, sem við flutnm. vildum eða lögðum til.

Jeg skal játa það, að það hefði átt vel við, að stjórnin undirbyggi þetta mál til framkvæmda, en jeg sje ekki, eigi stjórnin að búa þetta mál undir næsta þing, að það sje þá nokkuru bættara, eins og nú standa sakir, því að tíminn er svo naumur, og mörg og mikil önnur verkefni handa stjórninni. Auk þess ber að líta á það, að nú eru þeir tímar, þótt stjórnin gjöri einhverja samninga, þá er alveg óvíst hvað þeir standa lengi. Það er ærið hæpið, að stjórnin geti fengið nokkur fjelög til þess, að skuldbinda sig löngu fyrir fram til þess, t. d. að láta í tje ákveðna tunnutölu af olíu, og því síður til þess, að lofa skipum til flutninga fyrir ákveðið gjald. En aðal undirbúningur málsins út á við er einmitt fólginn í þessu.

Hjer heima er alt hægra um vik. Og þótt fyrirkomulagið á versluninni yrði ekki fyrst í stað sem ákjósanlegast, þá stendur það til bóta, og má slíkt ekki draga úr framkvæmdum málsins.

Mjer dylst það eigi, að svo framarlega sem landsstjórnin á kost á að geta tekið að sjer olíusöluna, þá muni hún gjöra það, og til næsta þings afla allra þeirra upplýsinga, sem mögulegt er; því væri ekki sú meining þingsál. till., væri hún næsta tilgangslítil.

Búast má við því, að olíufjelagið panti minna af olíu, þangað tíl það sjer hver afdrif þetta mál fær hjá stjórninni og þinginu.

Því var hreyft um daginn, þegar mál þetta kom fyrst til umræðu, að ef landssjóður tæki að sjer einkasölu á olíunni og frumvarp okkar háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) yrði þegar að lögum, þá mundi steinolíufjelagið enga olíu panta, og vel gæti farið svo, að landið yrði olíulaust. En geta má þess, að með þessari afgreiðslu þingsins á málinu, fer því mjög fjarri, að landinu sje nú nokkuð betur borgið með olíu. Því vitanlegt er það, að fjelagið getur búist við því, að strax á komanda sumri taki landssjóður að sjer olíusöluna, ef hann getur. Svo þessi hætta er engan veginn útilokuð.

Jeg mun eigi gjöra frekari tilraunir til þess, að koma málinu fram á þessu þingi, og verð eftir atvikum, að sætta mig við það, sem fjárhagsnefndin hefir lagt til.

Jeg þarf ekki að taka það fram, að þjóðinni er þetta fullkomið alvörumál, og væntir þess af þinginu, að það gjöri sitt ítrasta til að koma því í betra horf. Það hefir sýnt sig á liðnum árum, að olíuverslunin hefir verið rekin svo, að þjóðin hefir haft af fjárhagslegan hnekki. Og á meðan byrlegar bljes en nú, og tímarnir voru betri, hefir fjelagið sjálft óbeinlínis játað þetta, játað, að það hafi selt með of háu verði, hvað þá nú þegar tímarnir eru slíkir, að þeir gjöra alla samkepni lítt mögulega. Greinilega kom þetta líka í ljós, þegar Fiskifjelagið gjörði steinolíukaup sín, sem af skiljanlegum ástæðum gátu ekki orðið nema lítil, nokkur þúsund föt, en samt lækkaði steinolíufjelagið þá samstundis sína olíu, og hjelt henni niðri um stund. En óðar en olía Fiskifjelagsins var þrotin, hækkaði steinolíufjelagið verðið gífurlega, um 15 krónur hverja tunnu.

Mjer þótti vænt um að heyra það hjá háttv. framsm. fjárhagsnefndar (Sk. Th.), að endalok málsins hefðu eigi verið undir því komin, að þingtíminn væri svo naumur. Jeg er einn af þeim, sem hefðu kosið, að þingið gæti orðið sem fyrst á enda kljáð; en engu síður kann jeg þó illa við, að þotið sje burtu frá óafgreiddum þýðingarmiklum stórmálum, er þinginu berast og enga bið þola. Og þótt jeg vilji hafa stutt þing, lít jeg svo á, að þingmönnum beri að gæta hagsmuna þjóðar sinnar í öðru eins stórmáli og þessu, þó að til þess gangi nokkur tími.

Háttv. framsm. fjárhagsnefndar (Sk. Th.) gat þess, að mál þetta væri að nokkuru leyti óþekt. Það er nú svo. Rannsókn hefir þó verið gjörð á málinu fyrir nokkurum árum, og hún sýnir að hjer er ræða um mikilsvert nauðsynjamál fyrir þjóðina. Um það að ræða, að fá þjóðinni góðrar og ódýrrar vöru, og landssjóði stórfjár. Því stórfje má telja 100—200 þús. krónur, sem landssjóður mundi vinna, og auk þess mundu einstaklingarnir fá vöruna ódýrari.

Háttv. framsögum. (Sk. Th.) drap á það áðan, að landssjóður mundi ef til vill tapa á versluninni. Það þori jeg að fullyrða að verður ekki. Jeg hygg, að fjárhagsnefndin geti alls ekki sýnt fram á, að svo mundi verða.

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) drap á, að ekki væri nægur tími til að afgreiða málið, og þyrfti það lengri undirbúning, og að jafnvel með þessum stutta undirbúningi ynnist þó nokkuð fyrir málið. Þetta sannar ekkert. Jeg gæti líka slegið fram hinu gagnstæða, jafnvel með meiri rökum, að eins líklegt væri, að ekkert ynnist fyrir málið með þessum undirbúningi einum saman, en vona hins vegar, að ekkert saki þó málið biði. Honum þótti jeg hafa farið fullhörðum orðum ræður sínar áður. Má vel vera. En eftir því sem hann talaði, skildist mjer ekki, að hann óskaði málinu fljótrar afgreiðslu hjá þinginu. Og ekki get jeg heldur verið honum samdóma um það, að það sje ungæðisháttur að láta í ljós vanþóknun sína á því, að lagðar sje óþarfa snörur á leið góðra mála. Má engu síður víta of mikið afturhald og þröngsýni, og á það síst meiri rjett á sjer.

Mjer þykir vænt um undirtektir stjórnarinnar í máli þessu, og að hún hefir áhuga fyrir því. Telur hún leiðirnar tvær, einkasölu og samkepni. Jeg, fyrir mitt leyti, held mjer við eina leið, einkasöluna. Með því móti, að landssjóður hafi einn alla steinolíusölu, á hann auðveldara með að útvega góða og ódýra vöru, veita landsmönnum hagræði og gróða, og fá sjálfum sjer tekna.

Tel jeg því, að einkasala sje eina leiðin.