08.01.1917
Neðri deild: 17. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í B-deild Alþingistíðinda. (460)

30. mál, lán til flóabáta

Hákon Kristófersson:

Hátttv. framsm. (Þorst. J.) segir, að vel hafi verið sjeð fyrir Vestfjörðum á síðasta þingi með fjárveitingu til flóabáts á Breiðafirði. Jú, viti menn. Eitt þing hefir tekið þá rögg á sig að veita fje til að uppfylla nauðsynlegustu samgönguþarfir þeirra, er við Breiðafjörð búa, og það hefir verið marg-talið eftir af háttv. þm. (Magnús Pjetursson: Enginn hefir talið það eftir). Jeg vil biðja háttv. þm. að láta vera að taka svona fram í fyrir mjer. Þetta, sem þingið hefir gjört, er sýnilega of lítið. Hjer er ekki farið fram á neitt nema sjálfsögð þörf krefji, t. d. ef hið fyrirhugaða strandferðaskip kæmi ekki. Það, sem einu sinni hefir komið fyrir, getur æ aftur komið fyrir.

Háttv. framsm. (Þorst. J.) skildist, sem jeg væri að vinna að því, að ónýta starf nefndarinnar. (Þorsteinn Jónsson: Misskilningur). Heldur vildi jeg taka till. aftur en stuðla að slíku óhappaverki. Jeg fæ ekki skilið, að eigi sje leyfilegt að átelja maklega störf þingnefnda.

Það er líklega rjett, sem háttv. framsm. (Þorst. J.) sagði, að nú eru neyðartímar. Því á þing og stjórn nú að bæta úr þeim þverbrestum, er með sanni má segja, að vitanlega hafi verið á gjörðum þings og stjórnar um þetta mál.

Hefði þingið 1914, í stað þess að vona fávíslega, að heimsstyrjöldin.sem nú stendur yfir, stæði að eins í nokkra mánuði, keypt eitthvað af þeim mörgu skipum, er þá stóðu til boða, værum vjer betur settir nú en raun ber vitni um. En þar sem ekki dugar að sakast mikið um orðinn hlut, ber oss öllum að vera samhuga um það, að ráða sem allra viturlegast fram úr þessu velferðarmáli, og gjöra það á þann hyggilega hátt, að öllum hjeruðum landsins megi að sem mestu gagni verða.

Háttv. framsm. (Þorst. J.) sagði, að gjört væri ráð fyrir, að Húnaflóabáturinn skryppi til Ísafjarðar. Það bætir ekki úr þeirri þörf, sem hjer er að ræða um, á svæðinu frá Ísafirði til Breiðafjarðar.

Eins og jeg hefi tekið fram, vildi jeg helst óska, að ekki þyrfti að nota heimildina. En mjer þykir æskilegt, að hún væri til, ef til kæmi.