08.01.1917
Neðri deild: 17. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í B-deild Alþingistíðinda. (461)

30. mál, lán til flóabáta

Matthías Ólafsson :

Mjer þætti leitt, ef háttv. framsm. (Þorst. J.) tekur orð mín svo, að jeg sje nefndinni vanþakklátur. Jeg er einmitt mjög þakklátur nefndinni, því að hún tók eins mikið tillit til flutningaþarfar í kjördæmi mínu og mögulegt var. En þrátt fyrir það geta orðið hreinustu vandræði hjá mönnum á þessu svæði. Setjum svo, að strandferðabátur væri rjett nýfarinn frá Ísafirði norður um land, er skip kæmi frá útlöndum og legði upp á Ísafirði vörur, er fara ætti til ýmissa hafna á Vestfjörðum. Þær yrðu svo að bíða á Ísafirði til þess, er strandferðaskipið væri búið að fara heila hringferð og gæti tekið vörurnar á leið sinni suður um aftur. Má nærri geta, að menn þar vestra, t. d. á höfnum þeim, sem strandferðaskipið kemur ekki á, væru orðnir nauðstaddir, þegar vörurnar loksins kæmist til þeirra. Það er sem sje ekki ætíð auðhlaupið að því, auk þess sem það er dýrt, að taka bát frá fiskveiðum og senda eftir vörunum, t. d. til Ísafjarðar. En hitt er betra oft og tíðum, að leigja báta, einn eða fleiri, og sanngjarnt, að til þess væri veittur nokkur styrkur úr landssjóði. Þetta er ekki svo mikið, þar sem um jafn stóran hluta landsins er að ræða. En hitt skal jeg taka fram, að heldur vil jeg taka till. aftur en ónýta staff nefndarinnar. En því vil jeg halda fast fram, að engin ástæða er til að slíta þingi fyr en sæmilega er gengið frá nauðsynlegustu málunum. Það er blátt áfram óleyfilegt að ganga illa frá þessum málum.