09.01.1917
Neðri deild: 18. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í B-deild Alþingistíðinda. (477)

41. mál, skaðabætur til farþeganna á Flóru

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg vil láta í ljós ánægju mína yfir þessari þingsályktunartillögu háttvirtrar fjárveitinganefndar. Alt mælir með því, að Englendingar beri kostnaðinn af því tjóni, sem farþegarnir á Flóru urðu fyrir. En mjer finst sjálfsagt, að landssjóður greiði þeim skaðabæturnar nú þegar. Það er alveg víst, að margt af þessu fólki hefir mikla þörf á að fá fjeð greitt strax. Stjórnin að sjálfsögðu innkallar fjeð hjá ensku stjórninni, og flýtir því máli sem frekast er unt.

Háttv. þingmenn geta fengið upplýsingar um, hvers konar fólk þetta er. Hjer liggur skrá frammi yfir nöfn og stöðu farþeganna. Þetta er flest fátækt verkafólk, ekkjur og unglingar, sem voru að leita sjer atvinnu yfir hábjargræðistímann.

Það má nærri geta, að þetta fólk hefir beðið tilfinnanlegt tjón við hrakninginn. Það hafði tapað atvinnuninni yfir júlímánuð, þegar best ljet, en þegar það kom loksins til Siglufjarðar var síld lítil, og sumir fengu ekki nærri strax atvinnu, og komu mjög fjelitlir heim í haust.

Þó að háttv. þingmenn óttist, að enska stjórnin greiði ekki síðar skaðabæturnar, finst mjer það samt vera mannúðarskylda þingsins, að gjalda fólkinu bætur fyrir hrakningana. Annars gjöri jeg ekki mikið úr þeirri hættu, að Englendingar greiði ekki hrakningakostnaðinn síðar, þar sem þeir hafa játað, að hernámið hafi verið mistök ein, og af misskilningi framið.

Jeg vona því, að þetta mál fái góðar undirtektir hjá háttv. deild.