09.01.1917
Neðri deild: 18. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í B-deild Alþingistíðinda. (481)

41. mál, skaðabætur til farþeganna á Flóru

Framsm. (Magnús Pjetursson):

Viðvíkjandi því, sem háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) sagði, að alt kapp yrði lagt á að innheimta skaðabæturnar hjá ensku stjórninni, vildi jeg láta þess getið, að þetta er einmitt það, sem nefndin heldur fast við, og er undirstrikað í nál.

En að því er snertir fyrirspurn háttv. þm. Borgf. (P. O.), um það, hvort fólki, sem var á skemtiferð með Flóru, eigi að greiða skaðabætur, þá þarf jeg eiginlega ekki að svara því. Þetta er skýrt tekið fram í nál., að ætlast er til að allir fái skaðabætur. Enda getur ekki annað komið til mála. Hjer er sem sje ekki um neina dýrtíðaruppbót að ræða úr landssjóði, eða niðurjöfnun eftir efnum og ástæðum, sem er svo ofarlega á baugi altaf hjer í hv. deild, heldur er hjer bráðabirgðagreiðsla á rjettmætum skaðabótum, sem allir jafnt eiga heimtingu á. Enda býst jeg við, að háttv. deildarmenn ætli ekki Englendingum það, að þeir fari að jafna skaðabótunum niður eftir efnum og ástæðum fólksins. Að láta sjer detta í hug, að jafn stórlát þjóð og Englendingar greiði ekki þetta lítilræði orðalaust, það væri að ætla þeim alt annað en sæmilegt virðist.