10.01.1917
Neðri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í B-deild Alþingistíðinda. (484)

41. mál, skaðabætur til farþeganna á Flóru

Framsm. (Magnús Pjetursson):

Háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) byggir hjer á alveg röngum grundvelli. Hann talaði um að gefa þessu fólki peninga. Þetta er ekki rjett. Oss hefir aldrei komið til hugar annað en að landssjóður borgaði þetta til bráðabirgða, því að vjer efumst ekki um, að Bretar borgi þetta fje. Það er ekki von að þeir sje búnir að því, því að skjölin um þetta mál munu tæplega vera komin enn í þeirra hendur.

Get jeg ekki skilið, að það geti skapað fordæmi til þess, að ungir menn fari að leggjast á landssjóð, og leita hans hjálpar, þótt eitthvað á bjáti. Getur verið, að tillit sje takandi til þess, sem háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) sagði, að betra mundi að lána fólkinu. Nefndin hefir líka athugað það, en það þótti ekki fært að fara þann veg.

Annars hefði það verið öllu heppilegra, að sami hv. þingmaður hefði komið fram með brtt., fyrst hann hefir svo margt að athuga við till. nefndarinnar.

Það getur verið, að hann hafi nokkuð til síns máls, er hann segir, að sjer ægi ekki tjónið. Þó má ekki dæma það eftir mælikvarða sveitavinnu. Því að það er aðgætandi, að síldarvinnan kemur svo að segja í hlaupum, og eru dæmi til, að kvenfólk hafi unnið fyrir yfir 24 kr. á dag við hana. Getur því atvinnutjón fólks þessa numið allmiklu, þar sem það einmitt varð af vinnunni besta síldartímann, en stuttu eftir, að það komst til vinnu, varð víða tunnu og saltlaust. Skil jeg því ekki annað en hv. deild sje óhætt að samþykkja till. og álít meira að segja, að það væri stór velgjörningur, þar sem það er kunnugt, að sumt af fólki þessu á mjög erfitt uppdráttar.

Annars er nefndinni ekki kunnugt um, hvort sumt af fólki þessa venur komur sínar á „Bíó“ og kaffihús. Áleit hún það fyrir neðan sinn verkahring að rannsaka það.