11.01.1917
Neðri deild: 21. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (490)

43. mál, skipagöngur sameinaða gufuskipafélagsins

Framsm (Magnús Pjetursson):

Stjórn sameinaða fjelagsins fór þess á leit í haust í brjefi til yfirpóststjórnarinnar dönsku, að samningur þess um póstgufuskipaferðir milli Kaupmannahafnar og Íslands um Leith og Færeyjar, frá 7. ágúst 1909, ásamt viðbæti frá 1912, verði skoðaður sem upphafinn, eða honum að minsta kosti frestað meðan ófriðurinn stendur. Heldur fjelagið því fram, að það geti ekki lengur talist bundið samningum, þar sem ófriðurinn gjöri það verkum, að grundvöllur samningsins verði að teljast alveg raskaður, vegna ófriðarástandsins.

Jeg vil drepa á helstu ástæðurnar, sem fjelagið færir þessu til sönnunar.

1. Ýmsar tafir skipanna, sem af ófriðnum leiða, svo sem rannsókn á skipunum, hernám og fleira. Sökum slíkra tafa geti orðið erfitt eða ómögulegt, að halda uppi umsömdum ferðafjölda.

2. Að allur reksturkostnaður við útgjörðina hafi stórum aukist, sjerstaklega kolaverð miklu hærra en fyrir stríðið.

3. Að erfitt hafi verið síðastliðið ár, að fá farm í skipin frá Íslandi til Danmerkur og jafnvel einnig til Leith, en aftur auðveldara að fá farm til norskra og sænskra hafna og búast megi við hinu sama árið 1917.

Þá kem jeg að fjórðu höfuð ástæðunni og bið háttv. deildarmenn að taka vel eftir henni, því hún er alveg einstök í þessu sambandi. En hún er sú, að millilandaferðir skipanna hafa verið samkvæmt áætlunum þann veg, að fjelagið hafi jafnframt á hendi nokkurskonar strandferðir, án sjerstakrar þóknunar. Aftur á móti hafi Eimskipafjelag Íslands ríflega borgun fyrir strandferðir, sem í raun og veru sje lítið meiri eða annað en það, sem sameinaða fjelagið inni af hendi. Auk þess sem landið sjálft sje hluthafi í því fjelagi og efli það þann veg til samkepni við sig. Eftir nokkrar málaleitanir við yfirpóststjórnina dönsku og stjórnarskrifstofuna íslensku í Kaupmannahöfn, hefir fjelagið nú tekið það ráð, að rjúfa á oss samninga. Minsta kosti blandaðist samgöngumálanefndinni ekki hugur um, að hjer væri um fullkomið samningsrof að ræða, þar sem fjelagið ætlaði sjer nú að hækka gífurlega farmgjöldin, og auk þess fækka viðkomustöðum. Þetta má sjá á símskeyti frá stjórnarskrifstofunni íslensku í Kaupmannahöfn, sem prentað er aftan við nefndarálitið sem fgskj. I.

Nefndin var á einu máli um það, að ástæður tímanna gætu á engan hátt rjettlætt slíkt samningsrof, og skal jeg reyna að færa rök fyrir því og fara þá nánar út í ástæður fjelagsins og tek þær í þeirri röð, sem jeg áðan nefndi þær í.

Um fyrstu ástæðuna er það að segja, að hún er auðvitað rjett, að skip geta oft tafist af þessum ástæðum. En beint fjárhagslegt tjón af þeim töfum býst jeg ekki við að verði tilfinnanlegt, því skipin fá nokkuð af því borgað aftur, því allir munu tryggja skip sín fyrir slíkum töfum. Jeg hefi ekki getað aflað mjer fullkominna upplýsinga um, hve mikið stríðsvátryggingin greiðir aftur, en það er áreiðanlegt, að það nemur miklu af hinum beina kostnaði, sem skipin verða fyrir af töfum, sem af ófriðum leiða, ef ekki allan þann kostnað. Það eina sem takandi væri í mál, vegna þessarar ástæðu, væri það, að taka ekki of hart á þótt einhver ferð fjelli úr fyrir ofurefli (vis major). Aðrar ívilnanir eða tilslakanir geta aldrei komið til greina.

Önnur ástæðan um aukinn reksturkostnað er auðvitað einnig rjett. En nefndin fær ekki sjeð, að þótt fjelagið græði ekki eins mikið á þessum samningsbundnu ferðum sínum eins og öðrum ferðum sínum, geti það verið ástæða til samningsrofa. Eftir því sem nefndin leit á, bera samningarnir það ekki með sjer, að fjelagið hafi áskilið sjer, að það þyrfti að græða einhverja vissa upphæð minst, til þess að halda ferðunum uppi. Síður en svo. Ef svo hefði verið, mætti telja, að vjer hefðum jafnan rjett til þess, að fá endurborgað af fjelaginu, ef það hefði grætt óhóflega mikið á samningsbundnum Íslandsferðum. En mjer vitanlega hefir aldrei verið farið fram á nokkurar uppbætur, þó vjer áður hefðum oft fulla ástæðu til að ætla, að sameinaða fjelagið græddi of fjár á samningsbundnum ferðum hingað. Enda býst jeg við, að fjelagið hefði ekki tekið þeim málaleitunum betur en vjer nú tökum kröfum þess. Jeg þarf varla að taka það fram, að þessi röksemdafærsla mín er einungis bygð á sanngirni og samanburði á ástæðunum, en ekki farið út í lagaskýringar. Það verður gjört á öðrum vettvangi, vona jeg.

Um þriðju ástæðuna er það að segja, að ef það yrði sannað, að skip fjelagsins gætu ekki tekið farm til Danmerkur eða Leith, nema eiga á hættu annað-tveggja að verða hernumin eða jafnvel sökt, þá virtist nefndinni, að komið gæti til mála, að þau tæki farm til norskra eða sœnskra hafna, með því að þar væri þó um ofurefli (vis major) að ræða. Aðrar ívilnanir af þeirri ástæðu óhugsandi.

Þá kem jeg að fjórðu og síðustu ástæðunni. Virtist oss sú ástæða næsta brosleg, en lýsir þó vel hug þessa danska fjelags til Eimskipafjelagsins íslenska. Jeg býst við að fiestir kannist við, að sama hljóðið er í þessari ástæðu eins og í símskeytinu alræmda, sem best hjálpaði Eimskipafjelaginu. Enda skil jeg ekki i öðru en að eins verði nú. Þessar aðfarir sameinaða fjelagsins eiga að vekja alla góða Íslendinga til þess, að efla sem fyrst og sem mest Eimskipafjelagið íslenska. Að koma með það, sem eina ástæðu fyrir samningsrofi, þótt vjer styrkjum Eimskipafjelagið til strandferða, nær auðvitað ekki nokkurri átt. Því til sönnunar vil jeg benda á, að jafnframt og samið var við sameinaða fjel. 1909, var einnig samið við Thorefjelagið og því veittur styrkur til strandferða. Ekki hefi jeg heyrt, að sameinaða fjelagið hafi þá kvartað um, að það væri ranglæti beitt. Nei, hjer talar að eins öfund og óvild sameinaða fjelagsins yfir vinsældum íslenska Eimskipafjelagsins.

Að kvarta undan strandferðastyrknum til Eimskipafjelags Íslands er enn meiri fjarstæða, vegna þess að það er vitanlegt, að sameinaða fjelagið hefir beinlínis haft hag af þeim, sjerstaklega af Goðafossferðunum. Því að Goðafoss flutti vörur á smáhafnirnar, sem sameinaða fjelagið losnaði við, og gat því flutt sína farma mestmegnis til stóru hafnanna. En það. liggur í augum uppi, að það er stórgróði. Enda hefi jeg heyrt haft eftir skipstjórum sameinaða fjelagsins, að þeir telji það sjerstakt happ fyrir fjelagið, hve vel Goðafoss hefir rækt smáhafnirnar, sjerstaklega á Húnaflóa.

Um leið og jeg bendi á þetta, skal jeg enn fremur benda á það atferli sameinaða fjel. l916, sem í framkvæmdunum að minsta kosti nálgast bersýnilega samningsrof. Á áætlunum 1916 er að vísu svipaður hafnafjöldi eins og á áætlun þeirri, sem lögð var til grundvallar við samninginn 1909. En við margar þessar hafnir er sett sú athugasemd, að þangað verði að eins komið, ef nægur flutningur býðst. Þetta hefir í reyndinni orðið svo, að skipin bafa aldrei á þessa staði komið. Segja líklega, að aldrei hafi boðist nægur flutningur. Þetta nær auðvitað engri átt. Það mætti undarlegt heita, ef á árinu 1916, þegar samgöngur voru verstar hjer við land, hefði ekki verið hægt að fá nægan flutning til þeirra hafna, sem fjelagið árin áður ætið hafði nægan flutning til, þegar allar samgöngur voru greiðari. Sem dæmi upp á þetta skal jeg nefna það, sem mjer er kunnugast, Húnaflóahafnirnar, Hvammstanga, Borðeyri og Hólmavík. Þangað komu skip sameinaða fjelagsins aldrei síðastliðið ár, en höfðu áður komið á þær hafnir 4—5 sinnum á ári. Meira að segja Hólmavík var á áætlun eina ferð alveg skilyrðislaust, en skipið kom þangað alls ekki þrátt fyrir það.

Þetta er undarlegt háttalagt, en þeir, sem kunnugir eru, þykjast fara nærri um ástæðuna. Hún muni vera sú, að einn kaupmaður á þessum stöðum hefir sýnt sig of mjög hlyntan Eimskipafjelaginu og notað skip þess. En þetta mun heldur ekki vera eins dæmi. Fjelagið hefir víða verið óvanalega stirt við smærri hafnir. Til dæmis hefir það komið fram bæði á Blönduósi og Sauðárkróki, að það sumpart hefir neitað flutningi til stórbæja, eða hlaupið burt af höfnunum öllum að óvöru, sennilega til þess, að geta fermt sig eingöngu á stóru stöðunum.

Jeg get ekki stilt mig um að nefna enn eitt dœmi. Um eitt skeið í sumar vantaði salt á Norðurfjörð og Reykjarfjörð, svo menn urðu að talsverðum mun að hætta róðrum, en góðfiski var. Svo vildi til, að salt fjekst þá hjer í Reykjavík og Ceres lá hjer og átti að fara norður. Lofaði hún að taka saltið, en þegar norður kemur, hefir hún ekkert meðferðis; hljóp frá því í Reykjavík. Þetta var auðvitað stórtjón fyrir menn, sjerstaklega það, að geta ekki fiskað um nokkurn tíma, og svo hitt, að verða síðar að kaupa sjerstakt skip með saltið úr Rvík dýrum dómum. Enn fremur má geta þess, að fjelagið hefir hylst til að senda vörur með aukaskipum til hafna, sem það þó hafði áætlun til með áðurnefndu skilyrði. Er það auðvitað í gróðaskyni gjört, þar sem þau skip tóku tvöfalt eða þrefalt farmgjald á við föstu áætlanaskipin. Jeg sje mjer ekki fært að halda lengra út í að telja upp syndir fjelagsins síðastliðið ár. Mjer hefir ekki endst tími til að afla mjer upplýsinga um það. En þar sem þetta, sem jeg hefi sagt, á að eins við um það svæði, sem jeg sjerstaklega þekki, þá efast jeg ekki um, að ýmsir aðrir háttv. deildarmenn geti komið með svipaðar sögur úr sínum sveitum.

En nú ætlar fjelag þetta ekki lengur að láta sjer nægja að brjóta samninginn á sama hátt og 1916 í smærri atriðum, heldur alveg rjúfa hann með því, að hækka gífurlega farmgjöldin og sleppa viðkomustöðum. Þetta sjest greinilega á fylgiskjali I. með nál., og enn fremur sjest þar, að aðrir skilmálar sje ófáanlegir. Hve mörgum viðkomustöðum fjelagið ætlar að sleppa er ekki unt að segja, vegna þess, að engin áætlun er komin, og vafasamt hvort nokkur áætlun verður samin öðru vísi en þá jafnóðum.

Afleiðingin af þessu samningsrofi er tvennskonar stórskaði fyrir land og lýð.

Fyrst og fremst ætlar fjelagið sjer að draga stórfje úr vösum landsmanna með farmgjaldahækkuninni. Hve miklu það muni nema, verður ekki sagt með vissu, en óhætt mun að fullyrða, að það verði ekki minna en hálf miljón króna.

Hinn skaðinn, sem af því leiðir, að höfnum er slept, getur orðið gífurlegur og jafnframt stórhættulegur fyrir sveitir þær, er til smærri hafnanna sækja, einmitt nú, þegar svo afar erfitt er um allar samgöngur og aðdrætti á sjó.

Það er vel þess vert að íhuga, hvernig ástandið er hjá oss þegar sameinaða fjelagið reiðir að oss hnefann. Samgönguútlitið og ófriðarástandið er þann veg, að vjer eigum allra erfiðast með að afla oss sjálfir samgöngubóta. Gæti þetta verið nokkur vottur drengskapar fjelagsins. Og undarleg tilviljun er það, að hnefi þessi ríður að oss einmitt meðan Eimskipafjelagið liggur í sárum.

Nefndin áleit því þetta samningsrof eins og hverja aðra kúgunartilraun, tilraun til þess að kúga fje út úr þjóðinni á þessum erfiðu tímum, og fanst nefndinni ekki liggja nema ein svör við því, þau svör, sem þessi tillaga ber með sjer, að láta ekki orðalaust brjóta rjett á oss.

Menn kunna að segja, að ekki þýði að spyrna á móti broddunum, og það af tvennu. Fyrst því, að það sje gagns. laust, því samningarnir sje svo úr garði gjörðir, að ekki muni hægt að hafa hendur í hári fjelagsins. Um það skal jeg ekki dæma. Úr því verða lög og dómstólar að skera. En þó það vitanlega væri gagnslaust, þá finst oss sómi landsins liggja við, að taka ekki slíku með þökkum. Jeg býst við því, ef einhvern ætti að hýða, og hann sæi að hann gæti ekki við það sloppið, að enginn mundi lá honum, þótt hann reyndi að malda í móinn, en kysti ekki strax á vöndinn.

Þá er hitt, að það sje áhætta að troða illsakar við fjelagið, vegna þess, að það geti þá alveg hætt siglingum hingað, en úr því gætum vjer ekki bætt. Getur verið. En ekki óttast jeg það svo mjög. Þess er að gæta, að Danir og danskir kaupsýslumenn hafa engu síður hagnað af, að engin tregða verði á siglingum milli Íslands og Danmerkur, og býst jeg því við, að Danir legðu alt kapp á, að þessar ferðir hjeldu áfram eins og verið hefir. Jeg á erfitt með að trúa því, að sameinaða fjelagið vildi verða til þess, að slíta nokkurn af þessum bláþráðum, sem enn tengja oss við Danmörku.

Vjer treystum því þess vegna, allir nefndarmenn, að hæstv. stjórn gjöri sitt ítrasta til þess, að sjá rjetti vorum borgið, en taka ekki blíðlega refsivendi sameinaða fjelagsins.