10.01.1917
Neðri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

42. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunnarmönnum landssjóðs

Forsætisráðh. (Jón Magnússon):

Það er eflaust rjett, sem háttv. framsm. (G. Sv.) þessa máls tók fram, að þetta mál væri erfiðasta og umfangsmesta málið, sem fjárveitinganefndin hefir til meðferðar á þessu þingi.

Jeg get tekið það fram nú þegar, að jeg hygg að tillagan sje eftir atvikum hyggileg, þótt jeg fyrir mitt leyti sje þeirrar skoðunar, að hún sje ekki allskostar rjettlát, sjerstaklega að því er snertir háu launin.

Ef vjer göngum út frá því, að öll laun, jafnt há og lág, hafi verið nokkurn veginn hæfileg fyrir ófriðinn, þá liggur í augum uppi, að þau eru líka öll orðin of lág nú, þar sem peningar hafa fallið svo gífurlega í verði, og er því rjett, að öll laun væri hækkuð, bæði há og lág. Þar með á jeg ekki við það, að öll laun hefði átt að hækka með sömu hundraðstölu, heldur hitt, að lægstu launin væri hækkuð með ákveðinni hundraðstölu og hluti af hærri laununum með sömu tölu, sá hlutinn, sem maður gæti talið þurftarlaun; hinn hlutinn væri annað hvort alls ekki bættur upp, eða þá með mjög lágri hundraðstölu. Hver sje þurftarlaun, er auðvitað nokkuð óákveðið. Erlendis var sum staðar fyrir ófriðinn talið að 2.000—2.400 kr. væru þurftarlaun fyrir fjölskyldumann.

Það er því skoðun mín, að hjer sje ekki nægilega gætt rjettlætis í till., þar sem hjer ætti í rauninni ekki að vera að ræða um annað en leiðrjetting á kaupgjaldi vegna verðfalls peninga. En eins og öll atvik liggja nú til, býst jeg við, að tillagan sje hyggileg og taki hæfilegt tillit til þurftar manna annars vegar og getu landssjóðs hins vegar.

Jeg vona, að tillagan verði því samþykt, þótt jeg hefði kosið, að minna hefði þar gætt styrksatriðisins.

Annars hefir háttv. framsm. málsins (G. Sv.) rakið það svo vel og rækilega, að jeg þykist ekki þurfa að fara neitt frekara út í málið sjálft.