10.01.1917
Neðri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (500)

42. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunnarmönnum landssjóðs

Sigurður Sigurðsson:

Jeg hefi skrifað — eða öllu heldur leyft að skrifað væri — nafn mitt undir tillögu fjárveitinganefndarinnar í þessu máli, með fyrirvara þó. Jeg sagði, að jeg hefði leyft það, af því að um það leyti, sem nefndin var að lúka starfi sínu í þessu máli, hittist svo illa á, að jeg lá í rúminu og gat því ekki sótt nefndarfundi. Ritari nefndarinnar kom því heim til mín, og vildi láta mig heyra nefndarálitið og rita undir það, en þá var jeg með 40° hita, og þegar svo er ástattt fyrir manni, vill maður sem minst þurfa að standa í stjórnmálastappi. Leyfði jeg þá, að nafn mitt væri ritað undir nefndarálitið með fyrirvara. Gjörði jeg það vegna þess, að jeg, eins og á stóð, treysti mjer ekki til að skrifa minni hluta nefndarálit, og svo til þess, að losna við ritara nefndarinnar sem fyrst, en ekki af því, að jeg væri samþykkur tillögum nefndarinnar. Það er síður en svo. Jeg ætlaði mjer að koma fram með brtt. við till. nefndarinnar og láta hana verða samferða nefndarálitinu. En eins og jeg hefi nú drepið á, hefi jeg ekki getað sint málinu neitt fram til þessarar stundar, sakir veikinda. En þar sem málin eru rekin áfram eins og húðarbikkja, nótt sem nýtan dag, þá neyðist jeg til, þótt jeg sje lítt undirbúinn, að gjöra grein fyrir afstöðu minni til þessa máls, og hvað ber á milli mín og hinna nefndarmannanna.

Í fyrsta lagi þykir mjer mælikvarðinn (skalinn), sem lagður er til grundvallar fyrir dýrtíðaruppbótinni, yfir höfuð of hár, að mínu áliti.

Enn fremur þykir mjer það of langt farið í tillögu nefndarinnar, er hún vill veita uppbót á laun hærri en 4.000 kr. Hins vegar vildi jeg lækka lágmarkið niður í 1.000 kr., eða jafnvel þar niður fyrir og veita á 1.000 króna laun og minni hæstu hundraðatölu, 50%, í uppbót. En svo fari hundraðstalan ört minkandi, eftir því sem launin vaxa. Tillaga mín er því á þessa leið:

Þeir sem fá 1.000 kr. í laun og minna, fá 50% í uppb.

Þeir sem fá 1.000 kr. upp í 1.500 kr. fá 40% í uppb.

Þeir sem fá 1.500 kr. upp í 2.000 kr. fá 30% í uppb.

Þeir sem fá 2.000 kr. upp í 3.000 kr. fá 25% í uppb.

Þeir sem fá 3.000 kr. upp í 3.500 kr. fá15% í uppb.

Þeir sem fá 3.500 kr. upp í 4.000 kr. fá 10% í uppb.

Þetta álít jeg hæfilega uppbót, og lengra en upp að 4.000 kr. launum vil jeg ekki láta fara.

Jeg gjöri ráð fyrir því, að þeir sem hafa 4.000 kr. laun og þaðan af minna, og lítið eða ekkert annað við að styðjast, brúki laun sín að mestu eða öllu leyti upp á þessum erfiðu tímum. En það er bersýnilegt, að ef 4.000 kr. maðurinn eyðir upp launum sínum, þá gjörir 1.000 króna maðurinn það ekki síður.

Ef mín tillaga kæmist fram, þá fær 1.000 króna maðurinn jafnt og 2.000

króna maðurinn, en uppbótin hjá 4.000 króna manninum verður lægri.

Þá er jeg síður en ánægður með, að enginn greinarmunur er gjörður á ómagamönnum og einhleypum. Dýrtíðin kemur óefað þyngra niður á ómagamönnum en einhleypum, og finst mjer því sjálfsagt, að taka tillit til þess. Vildi jeg að þingið ákvæði einhverja fjárupphæð, er greiða skuli fyrir hvert barn innan 16 ára, þegar þau eru orðin tvö eða fleiri. Mjer finst það í sjálfu sjer ekki rangt, og talsvert í áttina, að gjöra einhvern greinarmun með ákveðinni hlutfallstölu á ómagamönnum og einhleypum. En mest rjettlæti fæst með því, að veita vissa upphæð fyrir hvert barn á ómagaaldri, en láta uppbótina hlutfallslega að öðru leyti vera lægri.

Þá kemur 3. atriðið, sem ber á milli mín og háttv. nefndar meiri hlutans, og það er, að ætlast er til, að uppbótin nái að meira eða minna leyti til allra starfsmanna landssjóðs, hverir svo sem þeir eru. En það er fjöldi af mönnum, sem hafa einhver störf í þágu landsins; en þessi störf eru mörg svo smávaxin, og taka lítinn tíma frá öðrum störfum, að það er hlægilegt, að fara að veita uppbót á þau. Þeir hinir sömu hafa þá líka þessi störf oft algjörlega í hjáverkum sem aukastörf, svo sem er t. d. um marga brjefhirðingamenn og enda póstafgreiðslumenn. Og sumir þessara manna reka samhliða þessu starfi, og sem aðalatvinnu, verslun, útveg og landbúnað, og eru auk þess stórefnamenn. Það virðist því ekki vera nein knýjandi og aðkallandi ástæða til að veita þessum mönnum dýrtíðaruppbót, enda mundi þá flesta litlu muna það, en fyrir landssjóðinn safnist þó þegar saman kemur.

En samkvæmt tillögu nefndarinnar nær þessi dýrtíðaruppbót næstum því til annars hvers manns í landinu. Hún nær til allra embættismanna landsins og sýslunarmanna, allra kennara, allra póstafgreiðslumanna og brjefhirðingarmanna, allra hreppstjóra o. s. frv. Allir fá þeir dýrtíðaruppbót.

Þegar jeg í nefndinni gjörði þessa athugasemd, svaraði háttv. þm. Dala. (B. J.), að erfitt væri að gjöra upp á milli manna í þessum efnum, og þótt þessi nefndu smástörf væri höfð fyrir aukastörf, þá væri þó launin fyrir þau, peningarnir, jafnt fallnir i verði frá því, sem var fyrir ófriðinn. Þetta er óneitanlega satt. En þingmaðurinn sagði meira. Hann sagði, að það væri að níðast á dugnaðarmönnunum, að láta þá enga uppbót hafa, þótt þeir reyni að leita sjer einhverrar atvinnu samhliða þeim starfa, sem þeir hafa fyrir landssjóð. En það er alls ekki að níðast á þeim. Ekki fremur en það er áníðsla, að leggja meiri skatta og kvaðir á þá, sem hafa efnast fyrir dugnað sinn, en á slóðana.

Nú hefir einhver maður póstafgreiðslu á hendi, og fær fyrir það 300—400 kr, en jafnframt því rekur hann stóra verslun, sem veitir honum stórfje. Hvað munar hann þá um uppbótina? Eða presturinn, sem hefir stórbú ? Hvað munar hann um þessa þóknun, og það því fremur, sem fólk nú á tímum er víða steinhætt að ónáða prestinn sinn til kirkjunnar, og hann getur því gefið sig allan við búskapnum, og það borgar sig líka eins vel eða betur að stunda hann en prestsskapinn. Og svona mætti halda áfram.

Auk alls þessa held jeg að þetta aukaþing hefði ekki átt að fjalla um þetta mál, heldur hefði það átt að bíða næsta þings, sem er fjárlagaþing. Og slíkt stórmál sem þetta heyrir einmitt fjárlagaþingi til.

Það er því tillaga mín, að málinu verði frestað til næsta þings, vegna þess, að það er þannig lagað, en jeg má auðvitað ganga að því sem gefnu, að þessari till. verði ekki sint.

Mjer finst vart gjörandi, að veita marga tugi þúsunda eða hundruð þúsunda úr landssjóði til allra þeirra, sem komist hafa í það heygarðshornið, að krækja í nokkurra króna bitling af opinberu fje, og það án þess, að spyrja þá nokkuð, sem borga skulu brúsann. Jeg væni alþýðu þessa lands alls ekki þess, að hún vilji ekki veita embættismönnum sínum uppbót, en jeg get vel sett mig í spor þeirra, sem bera erfiði og þunga dagsins, að þeir vilji, að þeir sje aðspurðir um þetta mál. Hjer við bætist og það, að þorri háttv. þm. eru hjer sjálfir málsaðiljar. Um leið og þeir veita dýrtíðaruppbót öðrum, eru þeir þar með að skamta sjálfum sjer í sinn eigin ask úr landssjóði.

Jeg efast um, að háttv. þm., sem hjer eiga hlut að máli, hafi leyfi til að greiða atkvæði, samkvæmt þingsköpunum, um þessa till. Og þar sem málið horfir þannig lagað við, þá tel jeg enn meiri ástæðu til að fresta úrslitum þess og leita álits alþjóðar um það, áður en því er ráðið til lykta.

Mjer finst hálfgjört gjörræði, að hamra tillöguna í gegn á þessu aukaþingi.

Verði till. ekki breytt í þá átt, sem jeg hefi bent á, eða jeg get felt mig við, þá neyðist jeg til að sjálfsögðu að greiða atkv. á móti henni.

Jeg er þess fullvís, að jeg muni hjer vera kallaður vargur í vjeum, og meira að segja hefir einn landssjóðslaunaður embættismaður kallað mig djöful nefndarinnar eða umboðsmann hans. En jeg læt mjer það í ljettu rúmi liggja, og fylgi minni eigin sannfæringu.

Framsm. nefndarinnar í þessu máli (G. Sv.) sagði, að verðhækkunartollurinn, sem lagður var á á síðasta þingi, og nefndur hefir verið dýrtíðarskattur, hafi verið lagður á í þeim tilgangi, að veita síðar af honum dýrtíðaruppbót. En jeg greiddi ekki atkvæði með þeim lögum í þeim tilgangi, að það fje, sem fengist með þessum tolli, skyldi renna í vasa embættismanna landsins og annarra starfsmanna landssjóðs, heldur til þess að tryggja það, að landssjóður væri ekki tómur, ef eitthvað óvenjulega óvænt bæri að höndum af völdum ófriðarins mikla. En annað mál er það, að sumir menn kunna ekki öðru en að alt af sje „tómahljóð í skúffunni“, og ef einhver upphæð skyldi einhverntíma hafa safnast eða vera til, þá eru þeir ekki í rónni fyr en búið er að útsóa henni. Sumir háttv. þm. vorir álíta jafnvel að sú, fjármálastjórn sje best, sem eyðir mestu, hvað sem fjárhaginum líður að öðru leyti.

Jeg ætla nú ekki að orðlengja meira um þetta mál að sinni. Jeg taldi mjer skylt að geta um afstöðu mína í því, og nú hefi jeg gjört það í stórum dráttum.