10.01.1917
Neðri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (502)

42. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunnarmönnum landssjóðs

Þorsteinn Jónsson:

Þeir, sem vilja gjöra sjer ljósar afleiðingar stríðsins, hljóta að sjá, að þær koma svo fram, að þeir fátæku verða enn þá fátækari og hinir ríku enn þá ríkari. Þetta verða fulltrúar þjóðarinnar að gjöra sjer ljóst, áður en þeir byrja á að bæta einstökum mönnum eða stjettum fyrir halla þann, er þeir hafa beðið af styrjöldinni. Dýrtíðarvandræðin hafa vitanlega komið harðast niður á verkafólki í kaupstöðum og sumum starfsmönnum landssjóðs. Þar nærri standa einnig fjölmargir smáframleiðendur, og það er einmitt aðstaða þeirra, sem margir þeir menn, er talað hafa um dýrtíðina, hafa algjörlega misskilið.

Jeg sagði, að sumir starfsmenn landsjóðs hefðu engan halla beðið af styrjöldinni. Ef til vill væri rjettara að segja, að þeir hefðu stórgrætt á ófriðnum. Jeg á þar við þá starfsmenn landssjóðs, sem á einn eða annan hátt eru stór-framleiðendur. Allmargir af verkamönnum landssjóðs búa á bestu jörðunum, sem til eru hjer á landi. Um aðra er vitanlegt, ef ekki sannanlegt, að þeir eiga mikla hluti í sumum hinum allra arðsömustu útvegsfjelögum, sem starfa hjer um þessar mundir. Það væri mjög mikið ranglæti, að veita þessum mönnum dýrtíðaruppbót, sem tekin væri með tollum og sköttum af bláfátækum verkamönnum og smábændum, sem, eins og jeg hefi áður sagt, hafa orðið fátækari vegna stríðsins. Menn verða að gæta þess, að till. nefndarinnar ganga í alt aðra átt en þá, að bæta starfsmönnum landssjóðs upp verðfall peninganna. Ef svo væri, ætti vitanlega að gjalda jafnan hundraðshlut af hverri krónu, hvort sem póstmaður eða landlandritari og ráðherra eiga í hlut. Jeg ámæli ekki nefndinni fyrir þetta. Jeg álít hana á rjettri braut, en að eins fara of skamt. Hún viðurkennir, að hjer sje um dýrtíðarhjálp að ræða, en ætlar þó að veita þessa hjálp mörgum þeim mönnum, sem allra síst þurfa hennar með. Og jeg get fullvissað háttv. þingdeild um það, að ef till. nefndarinnar verða samþyktar, þá vekur þetta atriði lang mesta og rjettmætasta óánægju hjá gjaldendum út um alt land. Af þessari ástæðu er það, að jeg mun eftir fremsta megni reyna, að hafa þau áhrif á þetta mál, meðan nokkur von er um, að því verði snúið til rjettari leiðar, að landsjóður veiti ekki dýrtíðaruppbót, nema þeim, sem í raun og veru þurfa þess. Það verður aldrei nógsamlega tekið fram, að það eru þúsundir manna á þessu landi, sem í raun og sannleika þurfa að fá dýrtíðaruppbót, fremur en margir þeir, sem þessar ráðstafanir eiga að hjálpa. Og meðan þingið hefir ekki betur en enn er orðið, ráðið fram úr þeirri hlið málsins, svo sem með hagfeldum skipaútvegunum og vörukaupum erlendis, sem verða mætti þjóðinni allri, og þó einkum hinum efnaminni, hin besta dýrtíðarhjálp, þá virðist rjett, að athuga sem best allar leiðir, sem orðið gætu til að spara landsjóði óþarfa útgjöld, við þessa takmörkuðu dýrtíðarráðstöfun.

Hv. þm. Dala. (B. J.) talaði nokkur óþörf og staðlaus orð um till.,sem hann hefir frjett til, eða sem hann ímyndar sjer að muni koma fram, en eru ekki farnar aðláta bóla á sjer enn. Þetta virðist allóþarft og óviturlegt umstang, og mundi liggja næst fyrir þann hv. þm. (B. J.), að athuga hvaða atriði þessa máls eru nú til umræðu. Sama háttv. þm. þóknaðist að gefa í skyn um okkur þm. Norður-Múlasýslu, að við værum fátækrafulltrúar. Að vísu mun þetta sagt óhugsað og út í hött. En hitt er annað mál, að jeg mundi alls ekki skammast mín fyrir að vera fulltrúi hinna fátæku. En jeg mundi. fyrirverða mig stórlega fyrir að taka peninga af þeim fátæku til að stinga í vasa þeirra efnuðu, eins og sumir háttv. þingmenn virðast álíta sjer samboðið að gjöra.