10.01.1917
Neðri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í B-deild Alþingistíðinda. (503)

42. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunnarmönnum landssjóðs

Jörundur Brynjólfsson:

Nefndin, sem ber fram þessa tillögu, hefir haft öll plögg um þetta mál þangað til í gær, og nefndarálitinu var fyrst útbýtt þá. Þess er því tæplega að vænta, að við hinir þingmennirnir höfum getað kynt okkur þetta mál sem skyldi. Það er í sannleika sagt leiðinlegt, að sumir þingmennirnir skuli hafa svo mikið að gjöra heima fyrir, að þeir megi ekki vera að átta sig á þeim málum, sem fyrir þingið koma, þegar um slík stórmál sem þetta er að ráða. Og að það skuli þurfa að afgreiða málin lítt athuguð og í mesta flaustri. Því að jeg tel það enga athugun, þótt vjer höfum lesið þetta stutta nefndarálit. Jeg skal auðvitað viðurkenna það, að ekki er til fulls hægt að átta sig á þessu máli, fyr en það er komið í framkvæmd, en væri tíminn nokkuð lengri, sem maður hefði til að kynna sjer málið, þá gæti athugunin orðið rækilegra en þetta.

Mjer þykir ekki nema eðlilegt, að margir embættismenn og opinberir sýslunarmenn landssjóðs hafa kvartað undan þeim kjörum, sem þeir hafa nú við að búa. Það er alkunna, að peningar hafa fallið í verði svo miklu munar nú á síðustu tímum, og lágt launaðir menn því átt mjög örðugt með að bjargast. Það er því skylda þingsins, að bæta að einhverju leyti upp þann hnekki, sem menn hafa alment orðið fyrir. Og það er skylda þess að gjöra það á þann rjettasta hátt, sem unt er að finna. Grundvöllurinn, sem fjárveitinganefndin byggir tillögu sína á, er alls ekki heppilegur. Jeg skal ekkert um það fullyrða, að brtt. sú, sem fram er komin, komist að rjettari niðurstöðu en nefndin. Jeg er alls ekki ánægður með hana, og finst hún alls ekki bæta úr misrjettinu hjá fjárveitinganefndinni.

Það mátti finna ýmislegt að lögunum frá 1915 um þetta efni, en samt sem áður voru þau að sumu leyti miklu betri en þetta, sem fjárveitinganefndin leggur nú til.

Nú er ætlast til, að allir í sama launaflokki fái sömu dýrtíðaruppbót. Nefndin segir þó, að þessi dýrtíðaruppbót, sem ætlast er til að menn fái, sje ekki einungis veitt sökum verðfalls á peningum, heldur aðallega sem dýrtíðarhjálp. En fyrst svo er, þá varalveg sjálfsagt að reyna að minsta kosti, að gjöra tilraun til að dýrtíðarhjálpin kæmi sem allra rjettlátast niður. Það er til dæmis engi sanngirni,sem mælir með því, að fjölskyldumenn fái engu meiri dýrtíðaruppbót en einhleypir menn. Fjölskyldumönnum er dýrtíðin miklu tilfinnanlegri. Jeg tel ekki í þessu sambandi alla einhleypa, þó ekki sje þeir kvæntir, heldur þá, sem ekki hafa fyrir neinum að sjá, nema sjálfum sjer, hvorki t. d. foreldrum eða systkinum. Þetta misrjetti þarf nauðsynlega að laga áður en málið er afgreitt hjeðan.

Þá er það líka aðfinsluvert hjá nefndinni, að hún gjörir engan greinarmun á þeim, sem hafa framleiðslu og þeim, sem enga hafa. Þetta er sýnilega rangt. Jeg skal t. d. benda á marga póstafgreiðslumenn út um landið, sem hafa mikla framleiðslu, eru t. d. kaupmenn og hafa póstafgreiðsluna í hjáverkum, og eins er um marga aðra embættismenn, en þeir eiga eftir tillögu nefndarinnar, að bera sama frá borði sem aðrir.

Það hefir verið vitnað til þess hjer í opinberu skjali, að verkamenn væru nú betur settir en embættismennirnir. Í erindi, sem skrifstofustjóri Indriði Einarsson sendi stjórninni, getur hann þess, að kaup verkamanna hafi hækkað 1914. Þetta er nú ekki rjett. Það var fyrst 1915, sem það hækkaði, og þá ekki nema um 14%. Síðan hefir það hækkað um önnur 14%, alls 28%. Þeir, sem kunnugir eru í Reykjavík, vita það vel, að með þessari hækkun verða verkamannalaunin hjer í mesta lagi 1.000—1.300 kr. á ári. Þetta hljóta því að vera gamanyrði hjá skrifstofustjóranum. En þrátt fyrir það, þótt ekki sje hægt að bera saman laun verkamanna og embættismanna, þá má þó segja að laun sumra embættismannanna sje of lág nú í dýrtíðinni, og því sanngjarnt að bæta þau ofurlítið upp.

Skrifstofustjórinn færir þau rök fyrir því, að embættismenn fái dýrtíðaruppbót, að ætlast hafi verið til, að verðhækkunartollurinn skyldi ganga til þeirra. Jeg hygg að þetta sje misskilningur. Þingið mun hafa litið á þann toll sem hverja aðra varúðarráðstöfun, í tilefni af stríðinu, sem nauðsynlegt væri að gjöra, ef illa kynni að fara á einhvern hátt, og landssjóður þyrfti að ráðast í einhver stórræði og þyrfti á miklu fje að halda, og var slíkt vitanlega hyggilegt.

Skrifstofustjórinn talar líka um, að síðan 1898 hafi kaup verkamanna hækkað um 105%. Þetta getur vel verið rjett. En þá var engi verkamannastjett til í landinu. Þá höfðu menn slíka vinnu einungis í ígripum. Indriði Einarsson segir, að kauphækkun sína hafi verkamann fengið með samtökum og jafnan með góðu. Þetta er rjett. Það má segja vinnuveitendum þessa bæjar til hróss, að þeir hafa jafnan látið að óskum verkamanna hvað kauphækkun snertir, oftast umtölulítið.

Sjálfsagt er því að gjöra ráð fyrir, að þinginu farist vel við starfsmenn landsins, því að ekki ætti því að farast ver við sína þjóna en privatmönnum. En þar sem Indriði Einarsson kveður svo að orði, að embættismenn sje allra manna verst settir, þá er það vitanlega mesta fjarstæða. Hann vildi víst áreiðanlega ekki skifta á stöðu við verkamann hjer í Reykjavík, þó honum væri goldinn sá tilkostnaður, er hann hafði við að stunda nám.

Jeg hefi minst hjer á þetta fyrir þá sök, að það er algjörlega rangt hjá I. E. að verkamenn sje svo vel settir ná, hvað launakjör snertir, og mjer finst skylda þingsins, að taka fult tillit til verkamanna- og sjómannastjettarinnar, er það gjörir tillögur um dýrtíðaruppbót fyrir starfsmenn landsins, og greiða ekki alt of mikið fje úr landssjóði.

Þegar það atriði var til umræðu, að landsjóður seldi vörur undir innkaupsverði, þá gat jeg ekki verið með því, að landsjóður gjörði það að svo komnu, alment. Get jeg ekki heldur ætlast til, að hann greiði starfsmönnum sínum upp til fulls tjón það, sem þeir hafa beðið við verðfall peninga, þótt það væri má ske eðlilega rjettlátt í sjálfu sjer.

Þá er enn eitt atriði, sem jeg vildi minnast á, en það er, að almenningur er að sumu leyti ver settur í máli þessu en embættismenn.

Gjörum ráð fyrir að verðhækkun á nauðsynjavörum, svo sem matvælum, eldsneyti o. fl. komi jafnt niður á þeim og embættismönnum. En þá er það húsaleigan, sem hækkað hefir svo gífurlega,

um 100% eða meir, sem kemur mikið meir niður á fátækum almenningi.

Jeg get tekið dæmi. Eitt herbergi, sem er 5X6 álnir að stærð og rúmar 3 álnir á hæð, kostaði fyrir nokkrum árum 5—6 kr., en nú 20 kr. Jeg gjöri ráð fyrir, að fæstir embættismenn þurfi að sæta slíkum afarkostum. Allflestir þeirra eiga hús sjálfir, og eru því betur settir að því er snertir þetta atriði dýrtíðarmálanna.

Í reyndinni er það svo, að þeir, sem minstar tekjur hafa verða verst úti í dýrtíðinni, og kemur þetta líka niður á þeim launamönnum landssjóðs, er lægst hafa launin, og er það því rjett hjá nefndinni, að ætla þeim hæstu uppbótina.

En þess sakna jeg, að háttvirt nefnd hefir ekki ætlast svo til, að farið væri eftir heimilisástæðum, það er að segja hvort maðurinn er ómagamaður eða einhleypur.

Háttv. framsm. (G. Sv.) gat þess, að nefndin hefði ekki álitið það framkvæmanlegt. Get jeg þó ekki fundið ástæður fyrir orðum þeim, því jeg gjöri ráð fyrir, að nefndin hafi rætt það atriði, enda gat háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) eðlilega um það, og er jeg skoðun hans alveg samdóma.

Jeg tel ekki rjett, að það þurfi að vera refsing hinum duglegri mönnum, þótt þeir fái ekki dýrtíðaruppbót, sem alls ekki þurfa þess með. Mætti þá eins segja, að það væri refsing að láta þá fá lág laun, sem lágt eru launaðir; en slíkt er þó auðvitað ekki í þeim tilgangi gjört, heldur er það vitanlega staðan, sem skapar launin. Einmitt með tilliti til þess, er háttv. framsm. (G. Sv.) sagði, að þessar tillögur nefndarinnar væru tilraun til að bæta rjettlátlega ástand það, sem nú er manna á meðal, þá virðist mjer misráðið, ef ekki er rækilega athugað hverir það eru, sem helst eru uppbótar þurfandi.

Segi jeg svo ekki fleira að þessu sinni.