10.01.1917
Neðri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

42. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunnarmönnum landssjóðs

Matthías Ólafsson:

Mjer hefir virtst svo, sem menn hafi hjer í dag haldið langar ræður, er ekki geti leitt til neins. Þeir koma ekki fram með neina brtt., en í því væri þó eitthvert vit. En að halda hjer í þinginu tilgangslausar hrókaræður, tel jeg ámælisvert. (Einar Amórsson: Hefir þessi háttv. þm. nokkra brtt.?). Nei, en jeg taldi skyldu mína að benda mönnum á þetta. Jeg verð að segja, að full þörf er á þessari dýrtíðaruppbót, og er þess fullviss, að þjóðin veit það vel, og er að engu leyti mótfallin því, að bætt sje úr brýnustu þörfum þjóna hennar. Það sem vakti fyrir landsstjórninni og nú síðast fjárveitinganefndinni, er að bæta úr þeirri brýnu nauðsyn, sem verðfall peninga bakar starfsmönnum þjóðarinnar.

Því hefir verið haldið hjer fram, að ýmsir framleiðendur hafi orðið fátækari vegna stríðsins. Jeg veit, að smá-framleiðendur hafa ekki grætt eins mikið eins og þeir stærri. En samt hafa þeir grætt. Maður, sem fyrir stríðið átti eitt skipund af fiski, átti þá 75 kr. virði. Nú getur hann fengið 75 kr. fyrir hálft skipund af fiski, og það verður sá að borga, er ekki framleiðir sjálfur fiskafurðir.

Það hefir verið talað um viðaukatill. á þgskj. 132. Þar er talað um að lækka uppbótina um 2/5 hjá einhleypum mönnum. Jeg sje ekki betur en þetta gangi í öfuga átt við það, sem mun vaka fyrir háttv. flutningsmönnum. Þá væri rjettara að koma fram með till., er færi í líka átt og háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) talaði um, að fjölskyldumenn fengi meiri uppbót.

Jeg ætla ekki að dæma um niðurlag till. á þgskj. 132. En hræddur er jeg um, að margir mundu heldur vilja verða af uppbótinni en gefa það vottorð um ástæður sínar, sem þar er farið fram á. Það hefir sem sje ætið áhrif á álit manna og gjaldþol þeirra, ef það kemur í ljós, að þeir eru þurfandi.

Jeg held, að það sje rjett hjá háttv. framsm. (G. Sv.), að till. þessi samsvari tíma þeim, er varið var til að semja hana. Það er allra mála sannast, að rjettlátast hefði verið, að greiða öllum starfsmönnum landssjóðs, án undantekningar, uppbót eftir verðfalli peninganna í hlutfalli við launaupphæð hvers eins. En það fanst nefndinni ísjárvert, og held jeg, að það sje rjett leið, að miða við nokkurskonar þurftarlaun. Rjeð hún því af að sameina rjettlætis- og nauðsynjakröfuna, og tel jeg það sanngjörnustu leiðina.