10.01.1917
Neðri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (513)

42. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunnarmönnum landssjóðs

Ráðherra Björn Kristjánsson:

Það var rjettilega tekið fram af háttv. framsm. (G. Sv.), að jeg bæði var í nefndinni, og var samþykkur gjörðum hennar, þótt jeg skrifaði ekki undir nefndarálitið. En þar með er ekki útilokað, að jeg geti fallist á breytingar, ef jeg tel þær ekki til skaðsemdar. Allir ræðumenn hafa reynt að finna sem mest rjettlæti, til að byggja tillögurnar á. En hvernig á að finna það fylsta rjettlæti þegar öll nauðsynleg gögn vanta? Hinn rjetti mælikvarði verður ekki fundinn nú, og verða menn því að sveigja til, og koma sjer saman um tillöguna. Jeg er ekki svo mjög hræddur um, að órjettlætið muni koma svo hart niður. Ef einhver þykist verða fyrir ranglæti, getur hann snúið sjer til stjórnarinnar og kvartað. Með því að stutt er til næsta þings, sem lagað getur misfellurnar, held jeg að menn ættu ekki nú, að vera að deila um keisarans skegg i þessu efni. Vildi jeg því mæla með því, að viðaukatill. á þgskj. 132 verði samþykt, svo samkomulag náist. Mönnum er ætíð opin sú leið, að leita rjettar síns á næsta þingi, ef þeir þykjast órjetti beittir. Í fyrstu þótti mjer athugavert ákvæðið um einhleypa menn, en eftir að jeg heyrði, að með því væri átt við þá, sem ekki hefðu fyrir öðrum að sjá, get jeg sætt mig við það. Menn eru ekki sammála um hvort skilja beri tekjur manna „brúttó“ eða „nettó“. Skýringin verður að koma fram, en þangað til hún kemur, verð jeg að skilja svo, að hjer sje átt við hreinar („nettó“) tekjur. Það virðist eðlilegast. Hins vegar er nauðsynlegt að stjórnin fái að vita við hvað er átt. Vildi jeg óska, að menn reyndu að vera stuttorðir, og sætti sig við þann mun, sem er á skoðunum manna og vilja í þessu máli. Háttv. Ed. tekur þá til sinna ráða, ef hún hefir eitthvað að athuga við það, sem hjer er gjört.