10.01.1917
Neðri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

42. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunnarmönnum landssjóðs

Sigurður Sigurðsson:

Jeg er nú búinn að gleyma ýmsu af því, sem jeg ætlaði að segja, því það er svo langt síðan jeg bað um orðið. Þó man jeg það, að háttv. framsm. (G. Sv.) var eitthvað að tala um mig í sambandi við kjósendur mína. Jeg skal geta þess, að það er óþarfa áhyggjur og andstreymi, sem sumir þingmenn hafa út af sambandi mínu við kjósendur mína. Það samband geta þingmenn látið sig litlu skifta. Víst er um það, að jeg fer aldrei til kjósenda minna til að spyrja þá hvaða skoðun jeg eigi að hafa og hvað jeg eigi að segja, heldur segi jeg þeim miklu fremur fyrirfram, hvaða skoðanir jeg hafi á málunum. Vona jeg því, að þingmenn geti slept öllum áhyggjum, hvað þetta atriði snertir.

Þá vildi háttv. framsm. nefndarinnar (G. Sv.) leiða rök að því, að jeg væri óvart flæktur innn í dýrtíðarmálið, hefði flogið á bænarörmum í faðm dýrtíðarnefndarinnar og beðist ásjár. Ekki get jeg játað, að svo sje. En jeg sagði nefndinni frá því, að formaður Búnaðarfjelagsins hefði átt tal við mig, og að hann hefði beðið mig að fara þess á leit við nefndina, að starfsmönnum Búnaðarfjelagsins og búnaðarsambandanna, yrði á sínum tíma veitt samskonar uppbót og öðrum. Nefndin tók því tveim höndum og hugsaði með sjer: Þar höfum við neglt kauða! En þetta var mjer ekki svo mikið áhugamál, að jeg ljeti það rugla mig af rjettri braut.

Annars ætla jeg ekki að fjölyrða um þetta núna. Jeg hefi nú fyrir skömmu lýst allítarlega afstöðu minni til málsins og við það læt jeg sitja. Þó get jeg ekki stilt mig um, að gjöra smáathugasemdir út af viðaukatillögunni á þgskj. 132. Einn flutningsmanna þeirrar tillögu, 1. þm. Skagf. (M. G.), vjek því að mjer, að jeg hlyti að verða með henni, þó ekki væri nema út úr neyð. Jeg sagði honum, að jeg mundi greiða henni, atkvæði, ef ekki kæmi fram önnur betri tillaga til breytinga á aðaltillögunni, sem jeg gæti felt mig betur við. Þá ljet háttvirtur þingmaður í ljós undrun sína yfir því, að jeg hefði ekki komið sjálfur fram með neina breytingartillögu í þessu máli. Þar til er því einu að svara, að jeg tel ekki eftir háttv. þingmanninum að vita, að jeg hefi ekki sótt deildarfundi um nokkurra daga skeið, sökum veikinda. Átti jeg því ekki hægt um vik að koma fram með breytingartillögur, en ákvað að bíða átekta og sjá, hvað nýtilegt kynni að verða af öðrum lagt fram í málinu. (Magnús Guðmundsson: Það hefði verið hægt að koma fram með einhverja miðlunartillögu á þeim tíma). Þetta getur þingmaðurinn sagt, en ekki vildi jeg koma fram með tillögu jafn illa hugsaða og þá, sem háttv. þingmaður var flutningsmaður að. Auk þess þótti mjer rjett, að sjá fyrst hvernig færi um tillögu þessa, enda lítið næði til að búa til breytingartillögu meðan á fundi stendur. En svo jeg snúi mjer nú að tilögunni sjálfri, þá þykir mjer ekki einhlítt, að taka þá undan, sem einhleypir eru, vegna þess að einhleypur maður getur oft haft meiri þörf fyrir dýrtíðaruppbót en kvæntur maður barnlaus, sem á góða og duglega konu. Konan þarf ekki að vera neinn ómagi, en börnin eru það alt af á vissu skeiði æfinnar og því finst mjer rjett, að veita barnamönnunum sjerstök hlunnindi. Og svo þegar tillögu þessa efnis átti að bera upp frá 1. þm. Reykv. (J. B.) og fleirum, og leita skyldi afbrigða frá þingsköpunum um hana, þá eru þau ekki veitt, í eina skiftið á öllu þessu afbrigðanna þingi. (Skúli Thoroddsen: Hún getur komið í síðari umræðu). Já, hún getur komið við síðari umræðu, það er satt. En það er tæpast tími til þess, að koma henni á framfæri. Þegar þetta mál er rekið áfram eins og asni undir böggum, og næturnar valdar til að vinna óheilla-, skaðræðis- og skemdarverkin, er aldrei tími til skynsamlegrar íhugunar. Og víst er það einkennilegt, að alt af skuli vera veitt afbrigði frá þingsköpunum, hvað ómerkileg og vitlaus till. sem í hlut á, en þegar svo kemur tillaga, sem eitthvert vit er í, þá fæst ekki undanþágan.

En ekki tjáir að deila við dómarann, og auðsýnt er hvert stefnir.

Þetta er nú í fyrsta sinn, sem úáran hendir embættismenn landsins, og nú sjest best hvernig þeir taka því. Þetta er nú í fyrsta sinn, að laun þeirra reynast lægri í raun og veru en krónutal þeirra segir, og þá er hlaupið upp til handa og fóta, og heimtuð jafnvel full uppbót þess, er peningar hafa fallið í verði. En ekki er verið að hlaupa til þingsins þótt allskonar úáran heimsæki alþýðuna og atvinnuvegi landsins, þótt hey hrekist, fiskafli bregðist eða verslunarvaran innlenda falli í verði. Alþýðan verður að þegja og þola óblíðu höfuðskepnanna og ranglæti valdhafanna.

[Hjer vantar niðurlag ræðunar. S. S.]