10.01.1917
Neðri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

42. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunnarmönnum landssjóðs

Framsm. (Gísli Sveinsson):

Jeg býst við að geta verið stuttorður, eftir allar þær ræður, sem haldnar hafa verið hjer í dag. Þó hefði jeg heldur kosið, að sumt af því, sem sagt hefir verið hjer í deildinni, hefði verið ótalað, og ýmislegt, sem menn hafa verið að leitast við að skýra, virðist enn jafn óskýrt. Menn vaða hjer jafnt í villu og svima eftir sem áður.

Jeg skal geta þess í sambandi við ræðu háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), að hann hafði ekki allmikið að athuga við þenna póst till. meðan bann sat í nefndinni; þá tók hann honum skaplega. Það er því dálítið einkennilegt, að hann tjáir sig nú ósamþykkan till. allri. Hann taldi sína till. vitanlega langskynsamlegasta, eða sinn mælikvarða. Jeg býst við, að það hafi líka verið meining hans; hún hlýtur auðvitað að vera skynsamlegust frá hans sjónarmiði. En þessi tillaga er alveg óforsvaranlega fram komin, nú á síðustu stundu, og jeg gjöri ráð fyrir, að þingið breyti ekki mælikvarða nefndarinnar fyrir hana.

Þessi háttv. þm. (S. S.) taldi, að verið hefði óáran í launum embættismanna nú þessi síðari árin. Er það þá nokkuð óeðlilegt, að þessi uppbótarkrafa komi fram, sem er að öllu leyti rjettmæt og á fullum rökum bygð? Enginn hefir látið sjer um munn fara, að starfsmenn landssjóðs hafi gjört þessa kröfu að ástæðulausu. Og þær stjettir, sem nú kunna að verða út undan að áliti þingmannsins munu bera sig upp og krefjast styrks síðar, enda er það alkunnugt, að styrkbeiðnir koma á hvert þing frá fjölda manna og stofnana, og er ætíð eitthvað veitt.

Hæstv. ráðherra Björn Kristjánsson, sem þó er samþykkur niðurstöðu nefndarinnar, hefir þegar að vissu leyti gengið inn á þessa brtt., en þau rök, er hann færir fyrir því, eru ekki allskostar rjett, eða svo rík, að rjett sje fyrir þau, að fallast á brtt.

Rök hans voru sera sje þau, að ef misrjetti kæmi fram, þá mætti leiðrjetta þau á næsta Alþingi, eða snúa sjer til stjórnarinnar, en hið sama má segja um till. nefnarinnar, og hún er þó ólíkt betur grunduð.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) hefir tekið tvisvar til máls, en litlu er honum að svara, því aukaatriði ein voru það, er hann drap á. Hann var að tala um það, að sumir háttv. þingmenn ætluðu að eyðileggja málið með tómum orðræðum, en jafnframt gat hann þess, að hann ætlaði eigi að þreyta hv. deild með meiri ræðuhöldum í þessu máli, og má kalla það trúlegt, því að háttv. þm. (Sv. Ó.) hefir talað svo oft að hann er nú dauður. (Sveinn Ólafsson: Það eru undantekningar til). En óviðkunnanlegt er það, að hann virtist hafa í hótunum, að hann og hans fjelagar ætluðu sjer að drepa málið, ef viðaukatill. næði ekki fram að ganga. Slík aðferð er lítt sæmileg.

Fleiri af þeim, er talað hafa með þessarri till., vilja svo vera láta, að brtt. sje að eins framhald af till. nefndarinnar, og byggist á sama grundvelli og till. hennar. En það er allskostar rangt. Nefndin vill veita öllum upp að vissu launahámarki dýrtíðaruppbót, en viðaukatill. vill undantaka marga, sem ekki ná launahámarkinu, og með því er að öllu yfirgefinn grundvöllur sá er nefndin lagði.

Háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J ), var að tala hjer um hitt og þetta, ýmist var hann að tala um að hlaða undir embættismenn, og læt jeg hann eiga þar rök sín, eða hann var að hreyta í þá eða bæjarmenn hjer fyrir það, sem landsstjórnin hefir gjört, og var það algjörlega út í hött, svo sem hann og aðrir vita mega, því að eigi eiga embættismenn alment, eða bæjarmenn hjer, sök á því, hvað landsstjórnin gjörir, eða hvað hún lætur ógjört. Hjer er að ræða um uppbót handa embættismönnum um land alt, en eigi að eins í Reykjavík, og verður því að finna sameiginlegan mælikvarða fyrir þá alla, og það hefir nefndin reynt að gjöra. Grundvöllur hennar er svo, að tillögur hennar geta gilt fyrir alla, hvar sem er á landinu. Og hvaða umboð hefir þessi hv. þm. (Þór. J.) til þess, að lýsa yfir því fyrir menn út um land, að þeir þurfi eigi uppbótar? Umsóknir liggja einmitt fyrir frá öllum fjölda þeirra hjer og þar. Hann sagðist ekki ætla sjer að taka hreppstjórauppbót sína. Það getur verið gott að lýsa slíku yfir hjer í þingsalnum, einkum til þess, að reyna að slá á viðkvæma strengi, en reynslan verður að skera úr því, hverir taki dýrtíðaruppbót og hverir ekki.

Háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) tók ýmislegt fram viðvikjandi tillögu þessari, sem hann er fyrsti flutnm. að, þótt leitt sje til að vita, en jeg sje þess ekki þörf, að svara honum nú, því jeg hefi áður krufið þessa tillögu til mergjar. Nú hafa flutningsm. till. lýst yfir því, að með þessum 1.500 kr. tekjum í tillögunni, sje átt við nettó tekjur, og það gjörir hana að sjálfsögðu fremur viðunandi, ef hv. þm. skyldu finna upp á að samþykkja hana. En sumir af þeim, er standa nærri till., hafa þó viljað láta það vera brúttó tekjur, en hjer hefir því þó verið slegið föstu, að það skuli vera netto-upphæð, sem sje að frádregnum öllum kostnaði, kaupi o. s. frv. En þegar svo er, þá held jeg, að þessi tillaga nái ekki til margra manna, og því gjörir það í sjálfu sjer nauðalítið, hvort tillagan er samþykt eða ekki. En vegna þess, að till. grautar frá rjettu marki, þá vil jeg gjöra mitt til, að tillagan nái ekki fram að ganga.