10.01.1917
Neðri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í B-deild Alþingistíðinda. (523)

42. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunnarmönnum landssjóðs

Matthías Ólafsson:

Jeg bjóst ekki við að tala oftar í þessu máli, en ummæli háttv. 2 þm. Rang. (E. J.) gjöra það að verkum, að jeg kveð mjer hljóðs.

Jeg skil ekki þær afskaplegu gáfur, er þessi háttv. þm. (E. J.) hlýtur að hafa, þar sem hann getur sett sig inn í mál, svo að segja á einni mínútu, er nefndin hefir þurft að hugsa um og yfirvega vikum saman. Slíkar yfirburðagáfur eru með öllu óskiljanlegar. En þegar betur er að gáð, þá sjest, að gáfurnar eru ekki eins miklar og hann lætur af, því þá kemur það í ljós, að hann botnar ekkert í málinu. Háttv. þm. (E. J.) var alt af að tala hjer um frumvarp, en hjer liggur ekkert frv. fyrir. Fyrir oss liggur þingsályktunartill., en ekki frv. Þetta sýnir ljósar en alt annað, að háttv. þm. (E. J) botnar ekkert í því, sem hann er að tala um. Og það verður að teljast með öllu óleyfilegt, að tala af jafn mikilli fáfræði um mál í þingsal þjóðarinnar.

Svo var þessi háttv. þm. (E. J.) að tala um það, að ef brtt. yrði feld, þá greiddi hann atkvæði móti frumvarpinu, ekki þingsályktunartill. Svo stuttan tíma hefir hann haft til að kynna sjer hana, að ekki er að búast við því, að hann hafi gjört það, þegar það hefir mörgum veitst erfitt, sem að staðaldri eru staddir í deildinni.

Það er hart, að þurfa að segja þetta um háttv. 2. þm. Rang. (E. J.), en jeg tel það nauðsynlegt, einmitt vegna hans sjálfs.

Hafa háttv. flutningsmenn brtt. athugað, hvað sá tími kostar, er brtt. tekur hjer á þingi? Ætli hún kosti ekki meira, og það til muna, en það, sem landssjóður kynni að spara með henni?

Háttv. flutningsmenn segja, að þessar 1.500 kr. eigi að vera nettótekjur. Þá er þar frá dregið kaup (Gísli Sveinsson: Til að lifa af að sjálfsögðu), og það gott kaup, og þegar svo er, þá hygg jeg, að engir verði undir tillögu þessa taldir. Jeg hygg það hefði verið miklu heppilegra, að þessi brtt. hefði aldrei komið fram, því þá hefðum við, meðan við sitjum og deilum um hana, getað komið fram ýmsum þörfum þjóðþrifamálum.

Ef háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) hefði komið með dýrtíðaruppbót, er hefði svarað fylsta rjettlæti til allra, þá hefði jeg fylgt honum að málum. En nefndin vildi fara milliveg í málinu mitt á milli rjettlætis og hjálpar. En ætli það hefði ekki þotið í skjánum, ef nefndin hefði lagt til að allir fengi 70% uppbót. Það er þó fylsta rjettlæti og annað ekki.

Þá eru sumir að tala um það, hvernig mál þetta sje komið inn í þingið. En hver annar en stjórnin átti að leggja það fyrir? Það var ekki nema sjálfsagt að kvörtunum væri beint þangað. Og mjer finst það ekki nema sjálfsagt, og eins og það á að vera, að allir samstjettarmenn komi sjer saman og gjöri sömu kröfur, og það er ekkert um það að segja, þótt einhverir embættismenn beiti sjer fyrir slík mál. Það er ekki nema eðlilegt og í fullu samræmi við það, hvernig aðrar stjettir haga sjer.

Að lokum vil jeg spyrja háttv. flutningsmenn brtt., hversu mikið fje sparast ef brtt. þeirra verður samþykt?