10.01.1917
Neðri deild: 20. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í B-deild Alþingistíðinda. (528)

42. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunnarmönnum landssjóðs

Framsm. (Gísli Sveinsson):

Það er vitanlegt, að þessi brtt. (135) er ekki borin fram af háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) einum, heldur er háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) þar með í ráðum. Þótt nú sá háttv. þm. (S. S.) hafi verið forfallaður, þá var hann það ekki allan tímann, sem starfað var að máli þessu í nefndinni. Er mjer kunnugt um það, sem heimsótti hann á sóttarsænginni. Tel jeg því, að hann hafi haft nægan tíma til undirbúnings till.

Er mjer líka kunnugt um, að hann hefir gengið með þessa flugu í höfðinu frá byrjun, og var honum þar ómögulegt úr að aka, svo fast hjelt hann við sinn „skala“.

Jeg tók það svo, að brtt. þessi œtti að koma í stað annarar, sem þegar er búið að samþykkja. Að minsta kosti fara þær báðar í sömu áttina, nema hvað hin er öllu betur úr garði gjörð, að því leyti sem það hefir verið tekið fram, að hún ætti við, að einhleypir menn teljast þeir einir, er ekki hafa fyrir neinum að sjá, en í þessari brtt. er að eins tekið tillit til barna, en ekki annara ómaga, sem geta þó vissulega verið mönnum eins þung byrði,

Sýnir þetta meðal annars ótvírætt slæman undirbúning á brtt.

Hvorki „skalinn“ í þessari brtt. nje hinni er hnitmyndaður nje nákvæmlega útreiknaður. Það er áð eins sá „skali“, sem till. nefndarinnur fer fram á. Í brtt. þessari eru þar að auki miklu stærri stökk í útreikningunum, að því er snertir prósentuhæð þá, sem miða skal við, af hinum ýmsu launahæðum.

Enn finst mjer óaðgengilegra að miða við 4.000 kr. laun sem hámark heldur en 4.500 kr.

Háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) sagði, að tilgangur brtt. væri sá, að hækka dýrtíðaruppbót þeirra, sem lægst eru launaðir, en það er rangt athugað. Satt að segja hjelt jeg, að þeir heyrðu til láglaunamönnunum, sem hefðu að launum 1.000—1.500 kr. Eða eru þeir nú hálaunamenn? Brtt. gjörir að eins þeim, er hafa 1.000 kr. eða minna 50%, en tillaga nefndarinnar, sem samþykt hefir verið, lætur þessa uppbót ná til 1.500 kr. launahæðar.

Gjörum ráð fyrir, að maður, sem á eitt barn, hafi 1500 kr. í laun. Eftir till. nefndarinnar fær haun í dýrtíðaruppbót 750 kr. En eftir brtt. fær hann 600 kr., miðað við 40%, eins og brtt. gjörir ráð fyrir, en ekkert fyrir barnið, af því það er að eins eitt, eða rjettum 150 kr. minna en eftir till. nefndarinnar.

Svona má telja hverja hugsunarvilluna á fætur annari hjá flutningsmanni brtt., og mun það því öllum ljóst, að hjer er hvorki um betri undirbúning að ræða, nje meiri jöfnuð.

Jeg skal nú fyrir hönd fjárveitinganefndar lýsa yfir því, að flýtir sá, er orðið hefir á málinu, er ekki með vilja nefndarinnar, og kann hún engum þakkir fyrir hann; telur hún miklu fremur, að málinu sje óhæfilega flýtt.

Hvað því við víkur, að nefndin hafi haldið skjölum, þá held jeg að hún verði ekki sökuð um það, að hún hafi gjört það að ófyrirsynju. Það er sjálfgefinn hlutur, að hún varð að hafa þau í höndum sjer til stuðnings og rannsóknar, enda eru það nefndirnar, sem eiga að vinna að málunum, fremur öðrum.

Ef þingmenn hafa lesið nefndarálitið og fylgiskjöl, þá tel jeg víst, að þeir hafi getað sett sig inn í málið fullnægilega á mjög stuttum tíma, eftir því sem annars er kostur á, því það er flest prentað, sem nokkru máli skiftir af skjölum þeim, sem hún hafði undir höndum.

Skal jeg svo ljúka máli mínu að þessu sinni.

Þegar hjer var komið, kom fram ósk um að umræðum yrði hætt, þegar þeir hefðu lokið máli sínu, er þegar höfðu beðið sjer hljóðs, frá þessum þingmönnum:

Sveini Ólafssyni,

Magnúsi Pjeturssyni,

Birni Stefánssyni,

Einari Árnasyni,

Þorsteini Jónssyni,

Þorleifi Jónssyni.

Bar forseti þá ósk undir atkv., og var hún samþ. með 17:2 atkv.