10.01.1917
Neðri deild: 20. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (530)

42. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunnarmönnum landssjóðs

Bjarni Jónsson:

Jeg get ekki látið hjá líða, að gjöra nokkrar athugasemdir við ræðu háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.). Ber hann sig aumlega, og hefir borið okkur til dóms, mig og framsögum. (G. Sv.) fyrir það, hversu illa við eigum að hafa leikið hina ágætu tillögu hans. En jeg vil strax lýsa yfir því, fyrir mína hönd og nefndarinnar, að háttv. framsm. (G. Sv.) hefir talað röggsamlega, vel og skipulega máli nefndarinnar, og engu bætt við, eða gengið fram hjá af því, sem nefndin vildi vera láta.

Háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) talaði mjög mikið um það, að jeg hefði sagt, eða viljað sagt hafa, að honum væri óljúft að fylgja rjettum málstað. Þetta er hreinasti misskilningur hjá háttv. þingmanni. Það, sem jeg sagði, eins og bæði hv. þingmaður og deildin heyrðu, var það, að jeg legði áhersluna árjetta málstaðinn í tillögunni, en ekki eins mikið á málefnið sjálft, dýrtíðaruppbótina. Það taldi jeg smámál. Það hefir og komið í ljós við allar þessar umræður, að rjettlætið í grundvelli nefndarálitsins er mest. Jeg hefi ekki vikið einu orði í þá átt, að hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) findist ekki hans málstaður rjettur, og er því alt tal hans í þessu efni einber misskilningur, misskilningur, sem svo oft vill brenna við meðal manna, sem gagnstæða skoðun hafa, og þá auðvitað helst þeirra, sem annaðhvort ekki kunna að hugsa, eða koma hugsunum sínum í viðeigandi búning, eða jafnvel hvorttveggja, eins og mjer virðist eiga sjer stað um háttv. 1. þm. Reykv.

Til þess nú að gjöra enn eina tilraun, ef verða mætti, að hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) kynni að auðnast að vitkast, vil jeg taka hjer eitt dæmi, auk hinna mörgu óhrekjandi sannana, sem framsm. (G. Sv.) hefir komið með, til þess að sýna það áþreifanlega, að það skýtur dálítið skökku við, þegar hv. þingmaður er að tala um, að rjettlætið sje einvörðungu hans megin í máli þessu.

Það er lýðum ljóst, og þarf víst ekki að tala langt mál um það, að langflestir af þeim mönnum, sem hafa innan við 1.000 króna laun eru efnamenn, hreppstjórar, póstafgreiðslumenn og þess konar menn, víðsvegar út um land. Og það eru engar minstu líkur til, að þeir eigi fleiri börn, getur líka verið tafsamt að telja það, en þeir, sem hafa 1.000—1.500 kr. En þess mun óhætt að geta, að menn með 1.000—1.500 kr. launum eru flestir svo settir (t. d. póstmenn og símamenn), að þeir verða að verja öllum sínum tíma í þarfir landsins. Virðist mjer, að það sje fremur illa gjört, að vilja draga úr dýrtíðaruppbót þessara manna, sem ekkert hafa annað við að styðjast, borið saman við þá menn, sem flestir, innan við 1.000 krónur, hafa þau laun að aukageta.

Háttv. þm. (J. B.) fann ástæðu til, að greiða atkvæði gegn brtt. minni og stendur svo hjer og kallar hátt, að hann vilji hjálpa börnunum. Það út af fyrir sig er fallegt. En á það má minna, að jeg hefi ekki heyrt því haldið fram, að fátækir vísindamenn og listamenn ættu færri börn að jafnaði en aðrir. En það eru líka til aðrar manneskjur, sem þarf að liðsinna og hugsa um, en blessuð börnin. Hvað segir háttv. þingm. um heilsulaus systkini og gamla, hruma og ósjálfbjarga foreldra. Eiga ekki einnig þessar manneskjur rjettlætiskröfu til þess, að tillit sje tekið til þeirra, nema að það eigi að skilja svo, að undiraldan í ræðu og hugsun þingmannsins sje það, að verðlauna beri fjölgun mannkynsins, eins og heyrst hefir að sumar þjóðir gjöri. En með því að það málefni liggur ekki fyrir þessari hv. deild, ætti ekki við að tefja tímann með slíkum umræðum. Og svo er þetta undarlega og lítt skiljanlega um háttv. þingm., hvernig stendur á því, að honum er ver við börn skálda og listamanna, en önnur börn. Og fyrst hann gleymdi mannúðinni í garð skálda og listamanna, er líka dálítið hjáleitt, að hann skyldi ekki undanskilja og afskifta barnakennara landsins, því eins og kunnugt er, eru þeir engu fremur starfsmenn landssjóðs en hinir.

En „bí, bí og blaka“ — það þarf auðvitað að vera góður við blessuð börnin; þau þurfa að fá lífsuppeldi. Og það fá þau alt að einu, þótt ræða og till. 1. þm. Reykv. (J. B.) eigi sjer ekki langan aldur, jafnvel þó að hann talaði digurbarkalega. Skal jeg svo ekki fjölyrða frekara um þetta, en leyfa mjer að benda á það, sem haft er eftir Cicero gamla, að það væri betra að 10 sekir menn slyppu, en að saklausum manni væri refsað. Á jeg þar við, að það væri betra, að jafnvel einhver, sem komist gæti af án dýrtíðaruppbótar, fengi hana, en að sá maður, sem endilega þyrfti hennar, yrði af henni. Og það er góð og hyggileg meining í því, sem latínumenn sögðu: „Peccare in cautiorem partem“, regla sem holl væri fyrir þingið að læra og fylgja.