08.01.1917
Neðri deild: 17. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í B-deild Alþingistíðinda. (548)

32. mál, skipun bankastjórnar

Forsætisráðh. (Jón Magnússon):

Jeg er hálf hræddur um að þessi till. komi nokkuð nærri stjórnarskránni. Þar stendur svo í 34. gr.: „Embættismenn þeir, sem kosnir verða til Alþingis, þurfa ekki leyfi stjórnarinnar til þess að þiggja kosninguna“. Það stendur að vísu „embættismenn“, en vafasamt hvort bankastjórar verða ekki samkvæmt málvenju heimfærðir undir þann titil.

Það kom til orða, þegar hin síðasta stjórnarskrárbreyting var á ferðinni, að svifta kjörgengi til Alþingis fleiri embættismenn en dómara, sem engin umboðsstörf hafa á hendi, og var sjerstaklega talað um bankastjóra Landsbankans. Þetta varð þó ekki, og þótt það yrði úr, að umgetnir dómarar væru sviftir kjörgengi, þá er jeg nú ekki viss um, að það hafi verið rjett ráðið. Og jeg tel athugavert að fara lengra á þeirri braut að svo stöddu. Tel jeg æskilegt, að hv. flutningsmenn till. hjeldi henni ekki til streitu.