08.01.1917
Neðri deild: 17. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í B-deild Alþingistíðinda. (549)

32. mál, skipun bankastjórnar

Þorsteinn Jónsson:

Mjer kemur þessi þingsálykunartillaga dálítið kynlega fyrir sjónir, og einkum finst mjer það einkennilegt, að háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) hjelt, að engin mundi hafa neitt út á till. að setja, jafnvel þótt hann játaði, að hún skerti persónulegt frelsi manna, sem hún líka gjörir í fylsta mæli.

Jeg geng út frá því, sem vissu, að engin stjórn muni láta sjer detta í hug, að skipa í bankastjórasætið öðrum mönnum en dugandi fjármálamönnum, og þessa menn vilja háttv. flutnm. láta útiloka frá þingsetu, eins og ekki væri nein þörf á því fyrir þjóðina, að slíkir menn eigi sæti á Alþingi. Jeg álít aftur á móti, að þörfin fyrir fjármálaþekkingu sje nokkurn veginn jafnmikil á Alþingi og í Landsbankanum. Jeg hefi ekki heldur heyrt þess getið, að nokkur þjóð reyndi að útiloka menn með jafnmikilli fjármálaþekkingu, sem bankastjóra frá setu á þingi sínu, og mættu þó fólksfleiri þjóðir fremur við því tjóni en við, þar sem þær hafa af miklu meiru að taka.

Jeg vil líka taka það fram, að mjer finst, að með þessu sje beitt hinu mesta misrjetti. Landsbankastjórunum er meinað að sitja á þingi, en bankastjórar Íslandsbanka eiga að mega sitja þar. Ef háttv. tillögumenn vilja láta eitt yfir alla samstjetta menn ganga, þá ættu þeir að banna öllum bankastjórum landsins þingsetu. Ef á annað borð á að ganga inn á þessa braut, þá er mjög óvíst hvar takmörkin eiga að vera; það er þá eins víst, að á næsta þingi yrði það samþ., að banna öllum sýslumönnum þingsetu. Slíkt á sjer þó stað annarsstaðar, að dómurum sje bönnuð þingseta, og svo er hjer um yfirrjettardómara. Enda ekki minni ástæða en banna bankastjórunum hana.

Hjer hefir viljað svo vel til, að í bankastjórasæti Landsbankans hafa valist menn, sem hafa haft svo mikið traust hjá þjóðinni, að þeir hafa verið kosnir þingmenn og endurkosnir hvað eftir annað. Þessir menn eru þeir Tryggvi Gunnarsson og Björn Kristjánsson. Í tíð Tryggva voru báðir gæslustjórarnir, Eiríkur Briem og Kristján Jónsson, þingmenn. Og þótti þá ekki heldur saka, hvað bankann snerti.