08.01.1917
Neðri deild: 17. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í B-deild Alþingistíðinda. (551)

32. mál, skipun bankastjórnar

Gísli Sveinsson:

Af því jeg er einn af flutnm. till. þessarar, vil jeg segja nokkur orð um helstu atriðin hjá þeim, sem móti till. hafa talað. Vil jeg geta þess alment, ef háttv. þm. Dala. (B. J.) hefir ekki kynt sjer till. þessa, að hún hljóðar um skipun bankastjórnar. Svo að ef háttv. þm. (B. J.) heldur, að hún eigi að gilda um fyrverandi bankastjóra, sem nú er orðinn ráðherra, ef hann heldur opinni stöðunni, þá er það misskilið. Því hún hljóðar alls ekki upp á neinn ákveðinn mann, nje heldur ef að eins á að setja í embættið, heldur var það meining okkar flutnm. að hún yrði sem góð regla í framtíðinni. Furðar mig því á, ef Alþingi verður henni mótfallið.

Mjer virðist hæstv. forsætisráðherra (J. M.) mælast til, að till. yrði ekki haldið til streitu, þar eð hún kæmi nærri eða ef til vill bryti bág við stjórnarskrána. Get jeg vel skilið, að stjórninni þyki hún ekkert sælgæti, eins og hún nú er skipuð stjórnin. En það var ekki heldur tilgangur okkar flutnm., að þóknast stjórninni með henni, heldur litum við á málið frá sjónarmiði bankastofnunarinnar, og vildum því koma fram, sem henni væri heppilegast.

Viðvíkjandi því, að nærri væri höggið stjórnarskránni, þá tel jeg það ekki rjett mælt. Dómarar eru þar útilokaðir frá þingsetu, svo að þegar þau embætti eru veitt, eru menn þeir, er við þeim taka, svo að segja „ex officio“ útilokaðir frá þingsetu. En hjer er öðru máli að gegna, þar sem skorað er á stjórnina, að hún við skipun í bankastjóraembættið semji svo um, og er umsækjanda þar fult frjálsræði veitt, hvort hann gengur að kostum þessum og tekur stöðuna eða ekki.

Get jeg ekki sjeð, að það yrði til fyrirstöðu því, að góður fjármálamaður fengist til bankans. Álít jeg, að bankamálin ein yrði honum nóg viðfangsefni. Er það minn vilji, að verulega bankafróður maður fáist í þá stöðu og gefi sig allan við henni.

Í þessu sambandi get jeg tekið það fram, að jeg veit ekki betur en að fyrsti ráðherrann íslenski hafi samið við landritara um það, að hann tæki ekki þátt í opinberum stjórnmálum, þótt landritari nú má ske í síðari tíð hafi verið farinn að hugsa um að hverfa frá þeim samningi, og ekki talið sig vera bundinn af honum lengur.

Þótt nú stjórnin sinti ekki till. þessari, ef hún verður samþykt, álít jeg þó að hún megi að gagni koma, þann veg að þegar nýr bankastjóri verður skipaður, þá sæi hann vilja þingsins í þessu máli, og mundi þá fremur sinna bankamálunum af alhug, og síður vasast í öðrum málurn.

Háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) gat þess til, að við flutningsmenn mundum hafa óttast það, að stjórnin veldi fylgismenn sína í bankastjórastöðuna. Þetta er ekki rjett til getið, að minsta kosti ekki hvað mig snertir. Fyrir okkur vakti það, að stjórn bankans kynni að geta orðið vilhöll og látið stjórnast af pólitískum ástæðum. Og í fleiru gæti hún verið vilhöll en lánveitingum og þess háttar. Jeg vil taka til dæmis skipun starfsmanna bankans. Það er alkunnugt, að því hefir verið slegið fram, að þar hafi ekki æfinlega alt verið óvilhalt. Jafnvel hefir verið haft á orði, að pólitískar ástæður hafi ráðið þar fullmiklu.

Þessu vildum við reisa skorður við í framtíðinni, og meðal annars af þessari ástæðu er till. fram komin.

Sami háttv. þm. (Þorst. J.) tók það fram, að þingið þyrfti þess með, að á því sæti maður með fjármálaviti. Ekki neita jeg því. En er það skoðun hans, að bankastjórinn sje sá eini maður í landinu, sem vit geti haft á fjármálum? Þykir mjer það ólíkt, enda má um það segja, að farið geti þar upp og niður, sem um hvað annað. Það er vel hugsanlegt, að bankastjóri hafi ekkert afburða fjármálavit, og alveg eins hitt, að aðrir menn beri skyn á slíka hluti. En sje þjóðin svo fátæk að fjármálamönnunum, að hún eigi ekki nema einn slíkan, þá tel jeg hann hvergi betur kominn en í bankastjórastöðunni.

Það er því mín skoðun, að bankastjórar eigi alls ekki á þingi að sitja. Er þeim hægt að snúa sjer til stjórnarinnar með áhugamál sín, og ef svo færi, að þeir fengi ekki áheyrn þar, þá má þó gjöra ráð fyrir, að þingið tæki til greina álit þeirra sem bankafróðra manna.

Því hefir verið haldið fram, að ósamræmi væri að láta þetta ekki gilda líka um bankastjóra Íslandsbanka. Slíkt er ekki hægt. Stjórnin skipar þá ekki, og getur því ekki sett þeim nein skilyrði eða komið við samningum, þar sem hjer er ekki um lög að ræða, heldur að eins áskorun.

Það kemur því ekki heldur til mála, að stjórnin geti neytt nokkurn mann til að sleppa rjetti sínum til þingsetu með því, að skipa hann í bankastjórastöðuna. Hann gengi að því sjálfviljugur.

Því var líka haldið fram af háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.), að gæslustjórar hefðu haft þingsetu, en þar er líka öðru máli að gegna, því þeir hafa ekki svo mikil ráð í bankanum. Það eru bankastjórarnir, sem bera ábyrgðina; þeir veita lán, ráða starfsmenn o. s. frv. Það er líka alkunnugt, að bankastjórnin hefir sett starfsmönnum ýms skilyrði um pólitísk efni og fleira. Get jeg því ekki skilið, að hæstv. ráðherra og fyrverandi bankastjóri (B. K.) hafi neitt út á þetta að setja, þótt skorað væri á stjórnina að gjöra þvílíkt samkomulag.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) lýsti yfir því, að bankastjórnin hefði ekki látið í ljós neina hlutdrægni við sig, eða hafi látið bitna á sjer skoðanamun í stjórnmálum. En mjer liggur við að spyrja, hvort hann hafi þá ekki notið nokkurs. Því kunnugt er mjer um það, að upp á síðkastið hefir fallið vel á með honum og bankastjórninni.

Satt er það, að menn geta tekið sinn þátt í stjórnmálum, þótt þeir sitji ekki á þingi, en þó tel jeg minni hættu á, að þeir gefi sig um of við þeim, eða með æsingi, ef þeir starfa ekki að þeim opinberlega, þurfa ekki að vasast í þeim málum, þótt þeir hafi sína skoðun og greiði atkvæði sitt þar eftir. Og er það trúa mín, að ef till. nær fram að ganga, þá mundu bankastjórar eyða minni tíma og starfskröftum í slík annarleg störf, sem ekki snerta stöðu þeirra, eða eru henni andstæð.