08.01.1917
Neðri deild: 17. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í B-deild Alþingistíðinda. (552)

32. mál, skipun bankastjórnar

Flutnm. (Matthías Ólafsson):

Jeg bjóst ekki við svona miklum umræðum um þetta mál, og eru mjer það vonbrigði, að svo margir hafa staðið upp til að hnýta við till. þessari. Jeg vissi, að hæstv. stjórn áleit hana ekki heppilega, en furðar á því, að hæstv. forsætisráðherra (J. M.) álítur hana munu valda stjórnarskrárbroti. Jeg get heldur ekki fallist á, að svo væri.

Yfirleitt álít jeg, að margt hafi mælt verið óþarft í þessu máli, og sumt helsti persónulegt.

Háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) fór nokkrum orðum um það, hversu þessu væri hagað í útlöndum. Jeg er má ske ekki eins fróður um það eins og hann. En þó get jeg frætt hann um það, að í mörgum öðrum löndum er heilum, stórum stjettum bönnuð þingseta.

Hjer er ekki verið að kreppa að persónufrelsi manna, því að hjer er einungis um samningsatriði að ræða. Þarf jeg ekki að fjölyrða um það, og síst eftir að háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) er búinn að taka fram dæmið um landritarann. En hins vegar getur staðið svo á, að kreppa verði að persónufrelsi manna, t. d. dómenda, og þá gjöra þjóðirnar það. Jeg fyrir mitt leyti vil heldur, að yfir dómararnir hafi pólitískan rjett en bankastjórarnir. Þar er þó æfinlega málsskot til, þar sem er hæstirjettur. En hjer er ekkert málsskot, þegar um bankastjóra er að ræða. Enn fremur fullyrði jeg, að mikill orðasveimur gangi um hlutdrægni bankastjóra Landsbankans af stjórnmálalegum ástæðum. Hvort slíkur orðasveimur er á rökum bygður eða ekki, er í mínum augum ekkert aðalatriði, heldur hitt, að hann getur vakið óhug manna til bankans. Þetta er bankanum miklu hættulegra nú en áður, meðan hann var einn, og hafði engan keppinaut hjer á landi. Þegar keppinauturinn er kominn, ríður á því, að enginn skuggi geti fallið á bankann.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) segir, að bankann hafi einkum skort fje. Maður verður að gjöra ráð fyrir, að bankinn muni smám saman eignast nægilegt fje, og þá verður stjórn hans að vera óaðfinnanleg og laus við hlutdrægni. Annars mundu menn heldur leita hins bankans, sem gjöra má ráð fyrir að væri engu síðri.

Jeg vil svo ekki orðlengja þetta frekar að sinni. Jeg hygg, að rök vor flutningsmanna sje mikil, og undrast, ef till. fellur. Þrátt fyrir alt mundi mjer líka vel, þótt svo færi; það mundi að eins sýna, hvernig háttv. þing er skipað.

Jeg mundi óska nafnakalls um till., ef jeg gæti fengið nógu marga til að undirskrifa beiðnina með mjer.