08.01.1917
Neðri deild: 17. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

32. mál, skipun bankastjórnar

Forsœtisráðh. Jón Magnússon):

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) lagði áherslu á, að jeg hefði sagt „nærri stjórnarskrárbroti“. Þetta sagði jeg af því, að bankastjórar hafa ekki áður verið kallaðir embættismenn, heldur þeir einir, sem hafa eftirlaun. Nú er þetta ekki orðið eins sundurgreint. Jeg býst við, að flestir telji bankastjórana embættismenn í skilningi stjórnarskrárinnar. Ef þetta er rjett, má telja það stjórnarskrárbrot, ef stjórnin auglýsir stöðuna og bætir við því skilyrði, að sá sem hljóti hana, megi ekki sitja á þingi. Auk þess get jeg búist við, að þótt skilyrðið stæði í auglýsingunni og að því væri gengið, yrði það með öllu ónýtt. Ef bankastjóri tæki síðar við þingkosningu, tel jeg, að ekki væri hægt að víkja honum frá fyrir það. Stjórnarskrárgreinin er til þess að verja embættismenn yfirgangi landsstjórnarinnar að þessu leyti. Ef leyfilegt er að setja sumum embættismönnum þetta skilyrði, ætti að vera leyfilegt að setja öllum það, og þá er stjórnarskrárgreinin ónýt. Jeg hefi eigi borið mig saman við samverkamenn mína í stjórninni, um það, hvort vjer mundum segja af oss, ef till. yrði samþykt. Jeg lít svo á, að brjóti einhver samþykt þingsins í bág við lög, sje sjálfsagt að láta sem hún sje ekki til.