08.01.1917
Neðri deild: 17. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í B-deild Alþingistíðinda. (556)

32. mál, skipun bankastjórnar

Jón Jónsson:

Jeg býst við, að það hafi vakað fyrir tillögumönnum að girða fyrir pólitísk afskifti bankastjóranna. Það er vorkunnarmál, því að það hefir þótt við brenna, að bankastjórarnir hafi óþarflega mikið verið við pólitísk afskifti riðnir. Auðvitað á það ekki að bitna á stofnuninni, þótt einhver starfsmaður hennar láti í ljós skoðanir sínar í stjórnmálum; það ætti að vera fyrir neðan virðingu vor þingmanna og stjórnarinnar, að láta bankann gjalda þess, þótt menn væri andstæðir einhverjum bankastjóranna í stjórnmálum.

Jeg skal þó ekki neita því, að það geti verið óheppilegt, að bankastjórar þurfi að eiga í hörkudeildum út af stjórnmálum. Það væri t. d. óheppilegt ef það orð legðist á út um landið, að einhver maður í bankastjórninni sje hlutdrægur; það gæti leitt til þess, að aðsúgur yrði gjörður að bankanum, og er þetta engu síður óheppilegt fyrir stofnunina sjálfa, þótt orðrómur þessi væri alveg ástæðulaus, sem vel mætti vera, því að alt af má gjöra mönnum getsakir.

Það kom fram hjá háttv. aðalflutningsmanni (M. Ó.), að hann taldi óheppilegt, að bankastjórinn væri að vasast í stjórnmálum; jeg er á sama máli sem hann um það. Jeg taldi æskilegast, að bankastjórarnir beittu sjer ekki í stjórnmálum. En samt get jeg ekki verið með tillögunni, af því að mjer finst hún óviðfeldin gagnvart þeim bankastjóra, sem nú er nýfarinn frá; hún er eins og vanþóknun til hans, um leið og hann skilar af sjer. En jeg veit enga ástæða til slíkrar vanþóknunar, og þess vegna er jeg á móti því, að hún komi nú fram. Í annan stað þætti mjer betur við eiga, að báðum bönkunum væri gjört jafnt undir höfði. Nú vitum vjer, að vier getum ekki gjört þetta gagnvart Íslandsbanka, nema því að eins, að því fengist framgengt, jafnframt því, sem þingið sinti einhverri beiðni um ívilnun handa bankanum, sem oftast liggja nú fyrir á hverju þingi, og fyr vil jeg ekki stíga þetta spor. Einmitt Íslandsbanki hefir undanfarið verið ærið heimtufrekur, og hefir einn sinna bankastjóra hjer í þingsölunum, og því verðum vjer að hafa fulltrúa hins bankans líka, til þess að betra jafnvægi haldist, og báðum verði gjört rjett. Það gefur að skilja, að vjer eigum að haga oss eins og rjett er og skynsamlegt, en ekki gjöra neitt í greiða skyni eða fyrir góð orð. Oss er skylt að sýna fulla einurð í öllum málum, t. d. eins og í seðlaútgáfurjettinum o. s. frv. Það hefir ef til vill ekki vakað nógu Jjóst fyrir oss, hvað vjer eigum að gjöra, til þess að koma því máli í gott horf, en þetta skýrist smám saman með reynslunni.

Jeg mundi helst kjósa, að Íslandsbankastjórnin væri einnig útilokuð frá þingsetu, en það getum vjer ekki að sinni. Það er rjett, að landsstjórnin getur samið við nýjan bankastjóra Landsbankans um það, að hann taki ekki þátt í stjórnmálum, en mjer finst óhæfa, að Alþingi fari nú að setja öðrum bankanum slík skilyrði, og það einmitt þjóðbankanum, meðan hinn bankinn, eign einstakra manna, mest útlendinga.hefir alls óbundnar hendur í þessu efni.

Þetta var þá það, sem jeg vildi sagt hafa. Það er ekki rjett að samþykkja tillöguna nú, en samt álít jeg hana miða í rjetta átt. En þá verða báðir bankarnir að verða samferða. Það er á allra vitorði, að landsstjórnin hefir látið bitna á bankanum, þegar bankastjórarnir hafa haft aðra skoðun en landsstjórnin. Þetta er ómótmælanlegt, þótt ekki sje það vel við eigandi, nje heillaríkt landinu, og væri þörf á að setja undir þann leka í framtíðinni.