12.01.1917
Neðri deild: 23. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í B-deild Alþingistíðinda. (56)

4. mál, Íslandsbanka leyft að auka seðlaupphæð

Magnús Pjetursson:

Jeg tók ekki til máls í gær af því að brtt. þessi, sem nú er á dagskrá, kom svo fljótt og óvænt. Jeg hafði sem sje búist við, að frumvarpið yrði látið fara óbreytt út úr þinginu, og með því greiddi jeg atkvæði, vegna þess, að jeg bjóst við, að prósentuhækkunin kynni að leiða til þess, að Íslandsbanki yrði að ganga frá að nota leyfið. — En eins og nú standa sakir og áhorfist, þá er ekki annað sýnna, en peninganna sje þörf í umferð, og því sýnist mjer, að ekki beri að setja bankanum þau skilyrði, sem hann á enga lund treystir sjer til að ganga að. Nú hefi jeg heyrt það frá stjórn bankans, að hún telur sjer ekki unt að ganga að þessari 4% tillögu fyrir bankans hönd. Hvort eins er ástatt með þessa nýju brtt., sem ákveður 3%, veit jeg ekki. Jeg hygg, að tilgangur þingmanna með þessari niðurfærslu hundraðsgjaldsins sje ekki sá, að gjöra bankanum alveg óaðgengileg skilyrði, heldur þvert á móti aðgengileg; en ef nú svo er, að bankastjórnin telur bankanum enn ekki fært að ganga að þessari tillögu, þá legg jeg til, að ganga að frv. eins og það var afgreitt til þessarar deildar, með því að ekki er tilgangur deildarinnar að fella málið. Það held jeg líka að væri ekki rjett, því jeg skoða þessa seðlaaukning, sem eina af þeim bráðabirgðaráðstöfunum, sem gjöra verður út úr þeirri neyð, sem ófriðurinn veldur.

Viðvíkjandi því, sem háttv. 1. þm. N.M. (J. J.) var að tala um verndarhendur, sem þm. hjeldu yfir þessari stofnun, Íslandsbanka, þá er þetta misskilningur.

Tilgangur minn er alls ekki sá, að halda neinum hlífiskildi yfir bankanum, en jeg álít, að í þessu máli njóti fleiri góðs af en hann, og því álít jeg alveg óverjandi af þm. að fella þetta frv., eða setja nokkur þau skilyrði, sem bankinn getur ekki gengið að, því það er víst, að með þessari ráðstöfun stendur margt og fellur.

Þó mun jeg nú greiða þessari nýju tillögu atkvæði mitt, í þeirri von, að bankinn sjái sjer fært að ganga að henni. En þess vænti jeg af háttv. þm., að þeir atbugi vandlega þetta mál, og sjerstaklega það, hvort frv., eins og það þá yrði breytt, væri ekki til lítilla, eða engra nota, til að ráða fram úr peningaþörfinni og vandræðum þjóðarinnar.