09.01.1917
Neðri deild: 18. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í B-deild Alþingistíðinda. (564)

36. mál, skipun landsbankastjórnarinnar

Flutnm. (Þorsteinn Jónsson):

Jeg vil með fám orðum taka það fram, sem fyrir oss flutningsmönnum þessarar tillögu vakir.

Vjer lítum svo á, að óhæfilegt sje, að aðrir verði bankastjórar Landsbankans en þeir, sem kunnugir eru og reynslu hafa á aðalatvinnuvegum landsins, sjerstaklega landbúnaði, fiskveiðum og verslun. Auðvitað göngum vjer út frá því, að engin stjórn skipi aðra í bankastjórasætin en þá, sem kunnugir eru bankamálum, því að án þeirrar þekkingar getur enginn maður verið hæfur í þá stöðu. En þeir verða og að vera gagnkunnugir þeim tveim atvinnuvegunum, sem líf þjóðarinnar byggist á. Þeir verða að vita full deili á, hvers þessir atvinnuvegir þarfnast, og helst sjálfir að hafa lagt stund á þá, því að sá veit gjör sem reynir. Bankarnir eiga að vera fjöregg þjóðarinnar og aðallyftistangir atvinnuveganna. En nauðsynlegt frumskilyrði þess, að fjármagn bankanna geti í raun og sannleika orðið landinu til blessunar, er það, að bankastjórarnir þekki kjör landsmanna út í ytstu æsar, og hafi einlægan áhuga á því, að hlynna að hverskonar heilbrigðum framförum.

Vjer gjörum ráð fyrir, að annar sje sjerstaklega kunnugur sjávarútveginum, en hinn landbúnaðinum, og auk þess auðvitað báðir bankafróðir, og hafi góða verslunarþekkingu. Því ætlumst vjer til, að annar bankastjórinn sje valinn með hliðsjón af tillögum Búnaðarfjelags Íslands og stjórn samvinnufjelaganna, en hinn með hliðsjón af ráðum Fiskifjelags Íslands. Vjer viljum að leitað sje tillaga þessara fjelaga, af því að vjer teljum þau kunnugust atvinnuvegunum.

Það er engan veginn tilætlun okkar að binda stjórnina að neinu leyti. Hún veitir auðvitað embættin hæfum mönnum, en tekur eins mikið tillit til álits nefndra fjelaga og hún sjer sjer fært. Eitt orð hefir af vangá slæðst inn í tillöguna. Það er orðið „einir“. Viljum vjer, að það falli burtu.