09.01.1917
Neðri deild: 18. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í B-deild Alþingistíðinda. (565)

36. mál, skipun landsbankastjórnarinnar

Gísli Sveinsson:

Ef það er rjett, að þingsályktunartill. um skipun ópólitískrar bankastjórnar, sem hjer var á ferðinni í gær, hefir verið óþörf, af því að ekki ætti að skipa bankastjórnina í nánustu framtíð, sem við flutnm. fjellumst á, með því að taka hana aftur um sinn, þá er þessi till. ekki síður óþörf, og er jeg hissa á, að háttv. flutnm. (Þorst. J.) skuli eigi þegar hafa tekið hana aftur. Skil jeg ekki, hvaða erindi hún getur átt til stjórnarinnar, sem ætlar ekki að skipa bankastjórnina að sinni. Mjer finst till. svo vaxin, að ekki geti komið til mála, að stjórnin taki tillit til hennar, enda stríðir hún beint á móti lögunum um skipun bankastjórnar Landsbankans. Auk þess finst mjer tillagan alleinkennilega orðuð. „Þeir sje látnir skipa bankastjórnina, er reynslu og þekkingu hafa, o. s. frv.“ Í ræðu sinni virtist háttv. flutnm. (Þorst. J.) vilja leggja í orðið skipa merkinguna „vera í“ bankastjórninni, eða var ekki svo? En jeg fyrir mitt leyti legg fremur í það orð merkinguna „veita“ stöðuna. Þótti mjer þetta því kynlegra, sem hv. flutnm. er stjórninni fylgjandi. Líklega á því þetta að þýða að „vera í“ bankastjórninni. En þetta, að þá eina skuli skipa, er þekkingu hafi á öllum aðalatvinnuvegum landsins, yrði erfitt að framkvæma, því að fáir munu þeir, er hafi alla þessa reynslu og þekkingu, og sje auk þess svo vel að sjer í bankamálum, að þeir geti talist hæfir til stöðunnar.

Tillögur fjelaga þeirra og stofnana, er till. telur upp, eiga líklega að vera trygging fyrir þekkingu þessara manna á atvinnuvegunum. En mjer er ókunnugt um, hvað þessar stofnanir geti lagt til, er þýðingu hafi. Því að ef skipað er í stöður þessar með viti, verður að taka meira tillit til bankamálaþekkingar en hins, hvort umsækjendurnir hafa róið út fyrir landsteinana, haft búhokur í sveit eða búðarkytru í einhverju sjóþorpi. Mjer þætti sem stjórnin misskildi skyldu sína, ef hún skipaði ekki í stöðuna bankafróða menn. Enda yrði síst betra að treysta þeim mönnum, er kynnu að hafa aflað sjer einhverrar hrafl-þekkingar á atvinnuvegum landsins, ef til vill hlaupið frá einu í annað.

Vona jeg að till. þessi verði tekin aftur. Annars vil jeg geta þess, að jeg tel ófært að láta bankann dankast áfram án fastrar bankastjórnar, er beri fulla ábyrgð gjörða sinna, en tómir þaulsetumenn látnir hafast þar við. En hvernig sem bankanum verður ráðstafað, er till. þessi jafn óheppileg.