06.01.1917
Neðri deild: 16. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í B-deild Alþingistíðinda. (570)

31. mál, styrkveiting til íslenskrar þýðingar á Goethe

Flutnm. (Skúli Thoroddsen):

Eins og og háttv. þm. er kunnugt, hefir legið hjer frammi á lestrarsal málaleitun frá háskólakennara Bjarna Jónssyni frá Vogi, um fjárstyrk úr landsjóði, til þess að geta haldið áfram íslenskri þýðingu á sjónleiknum „Faust“ eftir Johan Wolfgang v.Goethe. Beiðninni fylgir sýnishorn af þýðingunni, og meðmælabrjef frá prófessor Paul Herrmann í Þýskalandi. Vil jeg með leyfi hæstv. forseta lesa brjef þetta upp í íslenskri þýðingu. Það hljóðar svo:

Háttvirti herra!

Að sýnishornum þeim af þýðingu yðar á Goethes Faust, sem þjer hafið birt til þessa, hefir mjer getist svo framúrskarandi vel, að því er snertir málfæri, rjettan skilning og blæ, að jeg ætla, að þjer sjeuð einmitt maðurinn, sem á að þýða Faust, snildarverk hins germanska heims, á íslenska tungu. Jeg sje og, að þjer hafið hvarvetna stuðst við hin bestu hjálparrit. Alt er það og laukrjett, sem þjer hafið lagt til skýringarinnar. Af þeim Íslendingum, sem mjer eru kunnir, veit jeg engan svo færan sem yður til þess, að gefa Íslendingum Goethes Faust á þeirra formfagra máli, til þess að hið ágæta skáldverk megi einnig verða til þess, að vekja og frjóvga landa yðar. Ef til vill gætuð þjer fengið styrk hjá Alþingi til þessað geta lifað áhyggjulaus, og unnið að þessu vandasama viðfangsefni yðar. Að minsta kosti mundi jeg ráða yður til að gjöra þessa tilraun. Ef svo fer, megið þjer nota bjef mitt, ef þjer hyggið, að meðmæli mín muni geta orðið yður að liði. Að mín sje rithöndin, geta þeir borið um Björn Magnússon Olsen, Indriði Einarsson og Geir Zoëga rektor.

Jeg óska verki yðar allrar blessunar, og vona, að jeg frjetti það frá yður við tækifæri, að þjer getið gefið yður allan við þessu æfistarfi yðar.

Með bestu kveðjum og óskum.

Yðar einlægur.

Professor Paul Herrmann.

Svo sem sjá má af brjefinu lítur þessi maður á málið eins og vjer flutningsmenn, að Alþingi beri að sjá um, að þjóð vorri gefist kostur á að kynnast þessu snildarverki. Um ágæti þessa rits skal jeg ekki fara mörgum orðum,— enda er það þegar víðfrægt orðið með öllum mentuðum þjóðum og stendur ofar mínu lofi. Jeg lít svo á, að ef vjer viljum teljast með mentaþjóðum heimsins, megum vjer ekki vera ókunnugir slíku ritj.

Jeg þarf ekki heldur að fara mörgum orðum um þýðingu bókmenta og fagurra lista fyrir þjóðirnar. Það er segin saga og sjest best við athugun á sögu mannkynsins, að líkamleg velmegun og iðkun fagurra lista fara jafnan saman. Hvort um sig er skilyrðið fyrir hinu. Eins og skáldskapur og aðrar fagrar listir hnigna við minkandi velmegun, eins víst er það, að líkamlegur þroski og velmegun minka við það, að bókmentir og listir fara í kaldakol. Jeg gæti nefnt þess mörg dæmi, en þau eru svo alkunn, að eigi er þörf að fjölyrða um það.

En sje það rjett, sem jeg nú hefi sagt, er það og augljóst, að vjer megum ekki missa þann gróða, sem þessir menn, skáldin, geta aflað oss. Vjer eigum miklu fremur að gjöra alt, sem vjer getum, til þess að hlynna að slíkum mönnum, — vera að spara nokkra aura úr landssjóði, sem hann munar ekkert um að missa, en sem gæti orðið til þess, ekki að eins að drepa einn mann og hugsjónir hans, heldur líka orðið þess valdandi, að alt landið yrði firt gróða, sem ekki yrði metinn til peninga, — megum ekki með nokkru móti sýna þann nánasarhátt og smásálarskap.

Þm. ættu að hafa það jafnan hugfast, að skáldum vorum og rithöfundum eigum vjer það að þakka, að vjer höfum getað varðveitt þjóðerni vott. Hins vegar eru ástæður vorar svo, að kjör rithöfunda vorra eru alveg gjörólík kjörum útlendra rithöfunda. Íslensku skilja fáir og því hafa rithöfundar vorir lítinn markað fyrir bækur sínar. Hjer er heldur enginn sjóður til styrktar rithöfundum, eins og í öðrum löndum. Bókmentastörf sín verða þeir að hafa í hjáverkum. Því verður landið að hlaupa undir bagga. Jeg get lýst því yfir, að jeg tel skáldastyrk þann, sem vjer höfum sjeð oss fært að veita alt of lítinn, — það væri ekkert gaman, ef hægt væri að sletta oss þingmönnum því í nasir, sem Þorsteinn skáld Erlingsson segir við Sigurð Breiðfjörð:

Ef að við fellum þig aftur úr hor,

í annað sinn grætur þig þjóðin.

Rjettast hefði oss flutnm. þótt, að bera fram frv. til heimildarlaga greiðslu úr landssjóði í þessu skyni. En vjer voguðum það ekki, eins og þingið er nú samansett, og vildum því eigi taka nema það, sem óumflýjanlegt er. Því höfum vjer borið fram þessa till. til þingsályktunar á þgskj. 61,umaðskora á stjórnina að veita af fje því, sem í fjárlögunum 1916—1917,15. gr., 20. tölulið greinir, 1.200 kr. yfirstandandi ár til Bjarna háskólakennara Jónssonar frá Vogi, til þess að halda áfram íslenskri þýðingu á Goethes Faust.

Samt hefði oss aldrei komið til hugar, að bera fram till. þessa, ef vjer hefðum haldið, að hún gæti orðið öðrum skáldum, sem áður hefði verið ákveðið að fengi styrk af því fje, sem veitt er til listamanna, að baga.

Mjer er líka óhætt að fullyrða það, að Bjarni Jónsson frá Vogi mundi aldrei hafa þegið slíkt, þótt boðið hefði verið, svo framarlega sem komið hefði það niður á öðrum skáldum og listamönnum. Nú hefir oss flutnm. verið tjáð, að eftir væru um 1.500 kr., er enn væri ekki ráðstafað af þessu fje. Enn má og taka það fram, að þeim, sem veitt var þessi 1.500 kr. upphæð síðastl. ár, var þá gefið það í skyn af nefnd þeirri, er fjenu úthlutaði, að styrkurinn væri veittur í eitt skifti fyrir öll, án fyrirheits um sama framvegis.

Um manninn sjálfan þarf jeg ekki að fara mörgum orðum um; hann er svo alkunnur alþjóð manna, bæði fyrir frumsamin ljóð sín og þýðingar, sem hann hefir auðgað með bókmentir vorar. Um þýðingu hans á Faust get jeg látið mjer nægja, að vísa til brjefs þess frá próf. Paul Herrmann, sem jeg las upp áðan. En nú er launakjörum hans svo farið, að hann getur ekki gefið sig við þessu lofsverða og merkilega fyrirtæki, heldur verður hann, til þess að hafa ofan af fyrir sjer, að gefa sig við tímakennslu, en með því að fá þenna styrk, getur hann slept tímakennslunni og varið öllum frístundum sínum til þýðingarinnar.

Að endingu vil jeg og benda þeim mönnum, sem alt af eru að tala um sparnað á það, að hjer er alls ekki um nýja fjárveitingu úr landssjóði að ræða, heldur er fjeð þegar veitt á síðasta þingi, svo að það þarf ekki að fæla þá frá því að greiða tillögunni atkvæði.