06.01.1917
Neðri deild: 16. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (574)

31. mál, styrkveiting til íslenskrar þýðingar á Goethe

Matthías Ólafsson :

Jeg býst við, að mönnum kunni að koma á óvart, hvernig mínar tillögur verða í þessu máli. Jeg hefi sjaldan lagt á móti fjárveitingum til vísinda og lista. En nú hlýtur þó svo að fara. Jeg skal þegar geta þess, að jeg hefi sjaldan sjeð óeigingjarnari till. en þessa, og það af þeim ástæðum, að allir flutningsmennirnir geta notið snildarverksins á sjálfu frummálinu. Það er því eingöngu fyrir almenning, sem þeir gjöra tillöguna, svo að flutningsmennina get jeg í engu áfelt. En jeg er á þeirri skoðun, að hjer sje um enga nauðsyn að tefla, að hjer sje engu niður slept, þótt verkið sje látið bíða til næsta þings. Einn maður sagði við mig í morgun, að vel gæti svo farið, að þýðandinn kynni að falla frá fyrir næsta þing.

Jeg efa ekki, að þessi þýðing, sem þegar er gjörð af Faust, eða rjettara sagt broti úr honum, sje sæmileg. En þótt svo ætti að takast til, að þýðandinn fjelli frá áður en hann hefði lokið þýðingunni, þá verða menn að vona, að eigi líði á löngu að þjóðin eignist mann, er þýtt geti Faust engu miður en þessi þýðandi. Og þótt það drægist eitt ár eða jafnvel áratug, þá fæ jeg ekki sjeð, að af því leiddi neitt stórtjón fyrir þjóðina, og það því síður sem ávalt fjölgar þeim mönnum, sem betur fer, sem læra þýsku og því geta lesið þetta snildarverk á sjálfu frummálinu, en þýðing ritverks, hversu góð sem hún er, er þó aldrei nema eins og svipur hjá sjón, borin saman við frumritið.

Alþýða manna mun vel þola að bíða, því að þetta á að vera fyrir hana gjört; ekki þurfa mentamennirnir þýðingar á ritverki, sem þeir skilja vel sjálfir. En þessi löngun mentamannanna, að lyfta alþýðunni upp, gengur svo langt, að hún rekst á fyrirmæli sjálfra fjárlaganna, og þá get jeg ekki betur sjeð en að styrkbeiðandi geti farið beint eftir því, sem þar er til ætlast, og snúið sjer með beiðni sína til nefndar þeirrar, sem fjárlögin fela úthlutun bókmentastyrks, og gat hann þá fengið meðmæli flutnm. tillögunnar.

Hjer liggur fyrir vottorð um þýðinguna á Faust. Jeg fyrir mitt leyti mundi hafa lagt meira upp úr vottorðinu, ef það hefði verið skrifað á íslensku. Kann þessi vísindamaður svo íslensku, að hann geti dæmt um þýðinguna? Ef hann getur ekki skrifað á íslensku, virðist mjer, sem hann muni ekki hafa fulla þekkingu á íslenskri tungu til að dæma um þetta efni.

Af þessum ástæðum verður mín tillaga sú, að deildin láti þetta mál afskiftalaust eða fresti því. Hjer er sem sje um hreinasta „luxus“ að ræða, en vjer höfum nóg með á þessum tímum að hugsa fyrir lifsnauðsynjum.

Það var tekið fram til meðmæla með tillögunni, að þýðandinn þyrfti að kenna, til þess að hafa ofan af sjer, en hann kysi heldur að hætta við kensluna, svo að hann gæti snúið sjer að þýðingunni. Jeg álít, að hann gjörði miklu þarfara verk með því, að halda áfram kenslunni, t. d. í þýsku. Með því gjörði hann fleiri menn færa um að geta lesið þetta ágætis ritverk, og þá gjörði minna til þótt þýðingin drægist.