06.01.1917
Neðri deild: 16. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í B-deild Alþingistíðinda. (578)

31. mál, styrkveiting til íslenskrar þýðingar á Goethe

Matthías Ólafsson:

Jeg skal ekki vera langorður, því að það hefir verið tekið svo mjúkum höndum á mjer, að jeg þarf fáu að svara.

Það er rjett, að þetta er ekki ný fjárveiting. Jeg veit það vel, að það væri gróði að fá þessu fræga riti snúið á okkar mál, en það vita allir, að þegar illa árar, þá er nauðsynlegt að biða með að kaupa munaðarvörurnar þangað til batnar í ári. Það vita allir, að ef maður hefir 1 krónu í vasanum, þá kaupir maður matarrjettinn en ekki bókina, sem hvorttveggja liggur fyrir framan mann. Jeg vildi því leggja það til, að þetta fje yrði notað til að halda lífinu í vorum eigin rithöfundum, en ekki til að þýða útlenda höfunda. Jeg er ekki með þessu að lasta háttv. þm. Dala. (B. J.) sem rithöfund, en það stendur öðruvísi á með hann en aðra rithöfunda vora. Hann hefir stöðu hjá þjóðfjelaginu, og jeg veit það fyrir víst, að hann líður enga nauð. Jeg býst við, að hann hætti ekki við að þýða Faust þótt, hann fengi ekki þetta fje. Jeg veit að honum sjálfum er það ánægja, að vinna að þýðingunni. Jeg vildi sjálfur óska, að jeg gæti veitt mjer þá ánægju að þýða hann á íslensku.

Jeg mæli þess vegna eindregið með því, að þetta fje, sem til er, verði látið ganga til meira þurfandi manna, sem skrifa frá eigin brjósti, því það verð jeg að segja, að jeg met meira frumlegan skáldskap en þýðingar, hve góðar sem þær eru. Og það hygg jeg, að hve mikil snild sem yrði á þýðingu Fausts, þá mundi sú bók ekki seljast meðal íslenskrar alþýðu, að minsta kosti mundi jeg, ef jeg væri bókaútgefandi, hugsa mig um tvisvar áður en jeg tæki að mjer að gefa þá bók út.