11.01.1917
Neðri deild: 21. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í B-deild Alþingistíðinda. (581)

37. mál, lánveiting til raflýsingar á Ísafirði

Björn Stefánsson:

Um leið og þetta mál er lagt fyrir háttv. Nd., vil jeg leyfa mjer að geta þess, að vjer þingmenn Sunnmýlinga höfum fengið áskorun, frá Búðum í Fáskrúðsfirði um að flytja sams konar málaleitun fyrir þá.

Vjer höfum ekki orðið við þessari áskorun vegna þess, að vjer álítum að inn á þetta aukaþing ætti ekki að vera að flytja önnur mál en þau, sem engan veginn mættu bíða aðalþingsins í sumar, og þó síst þau, sem færu fram á fjárgreiðslur úr landssjóði, og því ætti, ef mögulegt væri, að bíða fjárlagaþingsins, sem saman á að koma að fáum mánuðum liðnum. Vona jeg nú, að þessi hæverska vor, að fara ekki að reyna að koma þessu máli að nú, verði fremur til að mæla með væntanlegri sams konar málaleitun frá oss á sumri komanda.

Um afstöðu mína til þessarar þingsályktunartill., sem hjer liggur fyrir, er það að segja, að jeg er henni fyllilega hlyntur. Þetta er þjóðþrifafyrirtæki, enda er það ekki að eins gagn og gaman, heldur og þjóðarmetnaður, að nota íslenskt afl, íslenska orku, í stað útlendrar vöru, sem vjer höfum þó hingað til orðið að gjöra oss að góðu. Slík fyrirtæki er sjálfsagt að styðja.

En atkvæði mitt til þessarar tillögu er að svo stöddu enn óráðið. Jeg tel nefnilega víst, og gjöri hjer með að tillögu minni, að þessari þingsályktunartillögu verði vísað til fjárveitinganefndar. Sjái hún sjer fært að mæla með henni, mun jeg einnig greiða henni atkvæði mitt.